Tuesday, May 31, 2016

Djúsí pizzur á þrjá vegu


Í síðustu viku átti ein af mínum bestu vinkonum afmæli og það vildi einnig þannig til að sama dag var fyrsti þátturinn af nýju matreiðsluþáttunum mínum að byrja, það var þess vegna heldur betur tilefni til þess að bjóða heim í pizzapartí og smá freyðvínsdrykkju.

Þegar ég fæ fólk heim í mat þá elska ég að bera fram einfalda rétti, ég nenni ómögulega að standa sveitt þegar gestirnir mæta og vil heldur hafa þetta afslappað og þægilegt. Það er líka mikill plús að bjóða upp á mat sem þú getur undirbúið með svolitlum fyrirvara. Eitt af því sem mér þykir skemmtilegast að bjóða upp á eru pizzur á nokkra vegu, það er brjálæðislega einfalt og slær alltaf í gegn.

Ég bauð stelpunum upp á þrjár pizzur, hráskinkupizza með ferskum tómötum, klettasalati og parmesan, ostaveislu sem er mitt uppaáhald borin fram með sultu og mexíkósk pizza með ostasósu, kjúkling og doritos snakki. Hér koma uppskriftirnar, ég mæli með að þið prófið þessar næst þegar ykkur langar í pizzu og ég vona að þið njótið vel. 


Pizzadeig 

·                     2 1/2 dl volgt vatn 
·                     2 tsk þurrger 
·                     2 tsk hunang 
·                     2 msk ólífuolía 
·                     400 - 450 g brauðhveiti frá Kornax
Aðferð: 
  1. Leysið gerið upp í volgu vatni og það er afar mikilvægt að gerið sé volgt.
  2. Bætið hunangi saman við og hrærið vel í. Þegar byrjar að freyða í skálinni er gerið klárt.
  3. Blandið olíu og hveitinu saman við í hrærivélaskál. Þið getið auðvitað hnoðað deigið í höndunum en mér finnst langbest að nota hnoðarann á hrærivélinni, það ferli tekur um það bil 4 - 6 mínútur. 
  4. Deigið er tilbúið þegar það er orðið að kúlu og klístrast ekki við hrærivélaskálina. Setjið viskastykki yfir skálina og leyfið deiginu að hefa sig í klukkustund. 


Ostaveisla 

Þessi pizza er án efa ein af mínum uppáhalds pizzum og við vorum allar sammála um að þessi væri æðislega góð, ef þið eruð mikið fyrir ost þá þurfið þið endilega að prófa þessa. Fyrr en síðar!

Hráefni:
  • 1 pizzadeig
  • 2 - 3 hvítlauksolía 
  • Rifinn mozzarella ostur 
  • Rifinn parmesan ostur 
  • 1 camenbert
  • 1/2 piparostur 
Aðferð: Fletjið út pizzadeigið og leggið á pappírsklædda ofnplötu. Smyrjið botninn með hvítlaukssósunni og dreifið rifnum osti yfir. Skerið camenbert og piparost í bita og setjið á botninn. Bakið við  220°C í 10 - 12 mínútur. Berið fram með sultu og njótið vel. 



 Það er nauðsynlegt að skála á góðum dögum. Við fengum okkur brjálæðislega gott vín í fordrykk sem passaði mjög vel með pizzunum, ég verð að mæla með þessu víni. Ég hafði ekki smakkað það áður en ég mun sannarlega kaupa það aftur. Ótrúlega fallegt og gott vín sem er á fínu verði, það heitir Aviva Pink Gold. Mæli með því í sumar!


Mexíkósk pizza með ostafyllingu


Þessi pizza er undursamlega góð og stelpurnar voru hrifnastar af henni, en ostasósan setur punktinn yfir i-ið.

Hráefni:
  • 1 pizzadeig 
  • Ostasósa 
  • 1 mexíkóostur 
  • 1 dós sýrður rjómi 
  • 1 kjúklingabringa eða sambærilegt magn af kjúklingakjöti 
  • 1/2 rauðlaukur 
  • Rifinn ostur 
  • Doritos
Aðferð: 

Útbúið ostasósuna með því að skera mexíkóostinn í teninga og mauka saman við sýrða rjómann með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Fletjið út pizzadeigið og leggið á pappírsklædda ofnplötu. Smyrjið botninn með ostasósunni og dreifið rifnum osti yfir. Skerið kjúklinginn í bita og dreifið yfir ásamt smátt skornum rauðlauk.  Bakið við 220°C í 10 - 12 mínútur. Sáldrið Doritos flögum yfir pizzuna þegr hún kemur út úr ofninum. 





Pizza með hráskinku

Ég fæ aldrei nóg af þessari pizzu og gjörsamlega elska hana. Hún er agalega góð með rauðvínsglasi, já ég segi ykkur það satt. 

Hráefni:
  • 1 pizzadeig
  • 1 skammtur pizzasósa (mér finnst líka gott að setja tómata passata)
  • Rifinn ostur 
  • 1 bréf hráskinka ca. 8 sneiðar
  • Klettasalat, magn eftir smekk
  • Tómatar
  • Parmesan ostur 
  • Salt og nýmalaður pipar 
Aðferð: Fletjið út pizzadeigið og leggið á pappírsklædda ofnplötu. Smyrjið botninn með sósunni og dreifið rifnum osti yfir. Bakið við 220°C í 10 - 12 mínútur. Raðið hráskinkunni á pizzuna þegar hún kemur út úr ofninum ásamt klettasalti, smátt skornum tómötum og nýrifnum parmesan. 




Ég vona að þið hafið fengið hugmyndir að góðu pizzakvöldi kæru vinir. 
Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups. 


Friday, May 27, 2016

Bananapönnukökur með sírópi

Æ það er í alvöru talað eitt það besta að byrja daginn á pönnukökubakstri, það gerist eingöngu á frídögum og ég nýt þess í botn. Uppskriftin hér fyrir neðan er ótrúlega einföld og þægileg, sem er plús. Við viljum ekkert flækja hlutina snemma á morgnana. Ég bæti stundum bönunum út í deigið og mér þykir það æðislega gott, en auðvitað má sleppa því eða bæta einhverju öðru góðu út í deigið. 

Amerískar pönnukökur með bönunum

Hráefni 
  • 1 egg
  • 5 dl KORNAX hveiti 
  • 3 tsk lyftiduft 
  • 1/2 tsk. Salt
  • 3 msk. Smjör ( brætt)
  • 4 dl. Mjólk (Ef ykkur finnst deigið of þykkt þá bætið þið meiri mjólk út í)
  • 1 tsk vanillusykur
  • 1 banani 
Aðferð:
  1. Sigtið saman hveiti, lyftidufti og salt í skál.
  2. Bræðið smjör, leggið til hliðar og kælið.
  3. Hrærið mjólk og eggjum saman í annarri skál.
  4. Setjið mjólkurblönduna út í hveitiblönduna og hrærið vel saman. 
  5. Bætið smjörinu saman við í nokkrum pörtum og hrærið vel á milli.
  6. Bætið vanillusykrinum saman við í lokin. 
  7. Skerið banana í bita og bætið bitunum út í deigið.
  8. Hitið smjör á pönnu og steikið pönnukökurnar á báðum hliðum þar til þær verða gullinbrúnar. 
 Ég skar niður meiri banana og fersk jarðaber og lét ofan á, hellti smávegis af sírópi yfir og sáldraði að lokum flórsykri yfir. 

 Ég mæli með Maine Maple Syrup frá Stonewall Kitchen, ótrúlega bragðgott siróp.


xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Brúðarkjóll og makkarónur


Nú styttist heldur betur í stóra daginn en eftir tæpa tvo mánuði ætlum við Haddi að gifta okkur eða þann 23.júlí. Ég er orðin hrikalega spennt og það var svolítið gaman að taka þátt í brúðarmyndatöku fyrir brúðkaupsblað Morgunblaðsins um daginn, þið getið skoðað viðtalið hér.  

Undirbúningurinn gengur vel en ég er svo róleg yfir þessu, mun rólegri en ég bjóst við. Það fyrsta sem við gerðum eftir að dagurinn var ákveðinn var að bóka kirkju og sal, svo höfum við rólegheitum tekið ákvarðanir varðandi athöfn og veislu. Gestalistinn er loksins klár en það var aðal hausverkurinn okkar, auðvitað vildum við bjóða öllum heiminum en salurinn leyfir það víst ekki. Nú höfum við hins vegar sagt skilið við listann og ég er búin lofa sjálfri mér því að líta ekki á hann aftur. (vonandi næ ég því haha). Og nú tala ég ekki meira um hann. 


En ég skal nú segja ykkur frá kjólnum mínum sem ég er svo ótrúlega ánægð með. Ég var með ákveðnar hugmyndir um kjól og búin að skoða trilljón kjóla en fann ekki þann sem mig langaði í. þess vegna ákvað ég að skella mér í brúðarkjólamátun hjá Brúðarkjólaleigu Katrínar. Ég mátaði marga mjög fallega kjóla og úrvalið kom mér á óvart, það var rosalega gott og mikið til af fallegum kjólum. Þegar ég mátaði minn kjól þá var ekki aftur snúið, hann var algjörlega fullkominn og ég gat ekki hætt að hugsa um hann. Ég fór síðan aftur með vinkonum mínum að máta og þá var endanlega tekin ákvörðun. Ég er rosalega fegin að hafa keypt kjólinn hér heima og býður Brúðarkjólaleiga Katrínar upp á úrvals þjónustu og mér finnst mikið öryggi að geta farið til þeirra ef eitthvað þarf að laga eða bæta. Mæli 100% með því að fara í brúðarkjólamátun hjá þeim. 


Ómótstæðilegar makkarónur

Makkarónur eru fullkomnar í brúðkaup, þær eru bæði svo ótrúlega góðar og fallegar. Tilvalið að bera þær með fordrykknum. Kampavín og makkarónur, það segir enginn nei við því. 

Hráefni
  • 3 Eggjahvítur
  • 210 g flórsykur
  • 125 g möndumjöl
  • 30 g sykur
  • Dálítill matarlitur
Aðferð:
  1. Sigtið saman flórsykur og möndlumjöl.
  2. Stífþeytið eggjahvíturnar, bætið sykrinum smám saman við. Ef þið ætlið að lita kökurnar þá bætið þið matarlitnum saman við á þessu stigi. Setjið meira en minna af matarlitnum þar sem liturinn dofnar verulega við baksturinn. 
  3. Bætið þurrefnum saman við eggjahvíturnar í þremur skömmtum, hrærið varlega saman með sleikju.
  4. Setjið deigið í sprautupoka og sprautið á pappírsklædda bökunarplötu með jöfnu millibilli. Gott er að miða við að makkarónurnar séu á stærð við tíkall.
  5. Sláið plötunni nokkrum sinnum í borðið svo kökurnar verði sléttar og fínar. 
  6. Látið kökurnar standa á plötunni í 25 - 30 mínútur. 
  7. Bakið við 150 ° C í  10 - 12 mínútur. Kælið mjög vel áður en þið losið þær af plötunni og sprautið kremi á þær. 
Ég elska að útbúa venjulegt smjörkrem sem ég bragðbæti með t.d. saltkaramellu eða hindberjamauki eins og ég gerði við þessar makkarónur á myndinni. Uppskrift að smjörkremi er hér og þið getið svo prófað ykkur útfærslur. Það fer allt eftir smekk hvers og eins. 

Þetta voru brúðkaupspælingar dagsins, ég mun að öllum líkindum deila ferlinu með ykkur smám saman og eins ef þið lumið á góðum ráðum varðandi brúðkaup þá eru þau að sjálfsögðu vel þegin. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups. 

Sunday, May 22, 2016

Æðisleg fyllt snittubrauð


Fyllt snittubrauð með pestófyllingu og hvítlauksfyllingu eru afar ljúffeng og einföld í gerð. Ég elska þessi brauð og geri þau mjög oft, þau eru frábær með súpu eða þá ein og sér. Það þarf alls ekki að vera flókið að baka sitt eigið brauð og mér finnst það alltaf svo gaman, sérstaklega vegna þess að þá veit ég nákvæmlega hvað fer í brauðið. Uppskriftin er mjög einföld og það tekur ekki langa stund að útbúa þessi brauð, þið getið svo auðvitað bætt öllu því sem þið viljið í brauðin og um að gera að prófa sig áfram. Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift um páskana og ég vona að þið njótið vel. 


Snittubrauð 

  • 500 g brauðhveiti frá Kornax
  • 320 ml volgt vatn
  • 1 msk hunang
  • 15 g ger
  • 1 tsk salt
  • 2  msk ólífuolía
  • Handfylli rifinn mozzarella ostur
Pestófylling
  • 5-6 msk rautt pestó (ég notaði pestó frá merkinu Ítalía, fæst í Hagkaup)
  • 2 msk fetaostur + smávegis af olíu
  • Salt og pipar
Ólífubrauð
  • 12-14 grænar ólífur
  • 2 – 3 hvítlauksrif
  • 2 msk ólífuolía
  • Salt og pipar
  • 1 tsk. Ítölsk kryddblanda
Aðferð:
  1. Blandið þurrgeri, volgu vatni og hunangi saman. Setjið viskastykki yfir skálina og leyfið gerinu að vakna í rólegheitum, það tekur 6 - 8 mínútur. Þegar byrjar að freyða í blöndunni er hún tilbúin. 
  2. Blandið gerblöndunni, hveiti, salti og olíu saman og hnoðið í nokkrar mínútur eða þar til deigið verður mjúkt. Setjið viskastykki yfir skálina og leyfið deiginu að hefast í klukkustund. 
  3. Búið til tvær lengjur úr deiginu og  skerið létt í brauðin eftir endilöngu.
  4. Látið hefast á ný í 20 – 30 mínútur.
  5. Hitið ofninn í 230°C.
  6. Útbúið fyllingarnar og smyrjið ofan á brauðin, sáldrið rifnum osti yfir og bakið við 220 – 230°C í 10-12 mínútur eða þar til osturinn verður gullinbrúnn.

Einfalt og hriklega góð uppskrift. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups. 

Frönsk súkkulaðikaka með silkimjúkri karamellusósu


Vikan flaug hratt og örugglega, ég sinnti blogginu mjög lítið í vikunni en ég var að klára misserisverkefni í skólanum sem átti hug minn allan. Ég og hópurinn minn rannsökuðum hvernig íslensk fyrirtæki nota Snapchat í sínu markaðsstarfi, virkilega áhugaverð rannsókn að okkar mati og höfðum við gaman af því að vinna hana (á köflum langaði okkur líka til þess að gefast upp, haha).

Helgarfríið hefur þess vegna verið einstaklega ljúft, að hafa ekki stórt verkefni hangandi yfir sér er býsna gott og gaman að geta verið með fjölskyldunni. Ég ætla líka að baka þessa köku hér sem ég gjörsamlega elska og ég veit að fólkið mitt gerir það líka. Það kannast nú flestir við uppskriftina að frönsku súkkulaðikökunni sem er bæði einföld og hriklega góð, en prófið hana endilega með þessari karamellusósu sem bráðnar í munni... berið kökuna fram með ferskum hindberjum en þau fara einstaklega vel saman með súkkulaði. 

Frönsk súkkulaðikaka með karamellusósu

Botn:

  • 200 g sykur
  • 4 egg
  • 200 g suðusúkkulaði
  • 200 g smjör
  • 1 dl KORNAX hveiti
Aðferð:
  1. Hitið ofninn í 180°C (blástur). 
  2. Þeytið sykur og egg saman þar til blandan verður létt og ljós. 
  3. Bræðið saman smjör og súkkulaði við vægan hita. 
  4. Blandið hveitinu saman við eggjablönduna, sumir vilja sleppa hveitinu en þá verður kakan sérstaklega blaut. Bætið súkkulaðiblöndunni varlega saman við í lokin. 
  5. Smyrjið bökunarfom eða setjið (eins og mér þykir best) bökunarpappír í botninn á forminu og hellið deiginu í formið. 
  6. Bakið kökuna í 30 mínútur.  

Ljúffeng karamellusósu 

  • 1 poki Góa kúlur 
  • 1 dl rjómi 
Aðferð:

  1. Setjið kúlurnar og rjóma í pott, bræðið kúlurnar í rjómanum við vægan hita. Hrærið í sósunni þar til hún verður silkimjúk. Kælið áður en þið hellið sósunni yfir kökuna. 
Skreytið kökuna gjarnan með ferskum hindberjum og berið strax fram. 


Ég vona að þið eigið góðan sunnudag framundan kæru vinir. 

Njótið vel. 

xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.