Tuesday, March 29, 2016

Vikuseðill

Gleðilega vinnuviku allir saman! Ég vona að þið hafið haft það einstaklega gott um páskana. Sjálf átti ég frábæra páska með fólkinu mínu og kom endurnærð til vinnu í morgun. Markmið vikunnar er að minnka súkkulaðiát haha og þá er tilvalið að hefja vikuna á þessum græna og fína drykk sem þið sjáið hér að ofan, æðislegur avókadó drykkur með sítrónu. Hér fyrir neðan finnið svo tillögur að kvöldmat út vikuna og ég vona að þið fáið nóg af hugmyndum.

Njótið vel.

Einföld grænmetisbaka með fetaosti er alltaf góð hugmynd eftir veisluhöld í marga daga. Það er upplagt að nota afganga í þessa böku t.d. kjöt eða kjúkling. 

Fiski takkós er frábær leið til þess að fá alla fjölskylduna til þess að borða meira af fisk og grænmeti. Ljúffengur réttur sem slær alltaf í gegn. 

Góðar og matarmiklar súpur eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér og gúllassúpan hennar mömmu er ein af þessum súpum sem ég fæ ekki nóg af. Það er líka tilvalið að elda hana í vikunni þar sem veðurspáin er heldur köld og þá er nú ekkert betra en matur sem yljar að innan. 

Kjúklinganúðlur með bragðmikilli sósu er frábær föstudagsmatur og réttur sem allir í fjölskyldunni ættu að elda. Algjört sælgæti!

Hví ekki að skella í Indverska veislu um helgina? Tikka Masala kjúklingur er náttúrlega himneskur og ég mæli með honum á laugardaginn. 

Helgarbaksturinn er súkkulaðiskyrkaka með jarðarberjum. En ekki hvað? Við þurfum öll okkar súkkulaði. 

Öll hráefnin í þessar uppskriftir fást í verslunum Hagkaups. 

Saturday, March 26, 2016

Súkkulaðibollakökur með páskakremi


Súkkulaðibollakaka með hvítu súkkulaðismjörkremi er alltaf góð hugmynd og sérstaklega um páskana. Ég verð að viðurkenna að ég er ekkert rosalega mikið fyrir páskaegg, ég vil heldur baka eitthvað gott og njóta þess. Ekki að ég stelist ekki í páskeggin hjá fjölskyldumeðlimum, það er önnur saga. Súkkulaðibollakökur með súkkulaðibitum og nóg af kremi er fullkomið á páskadag og ég mæli með að þið prófið þessar, þær eru mjög einfaldar og ég elska hvað maður er fljótur að baka bollakökur. 

Við erum búin að hafa það ótrúlega gott undanfarna daga, erum í sveitinni og ætlum svo í dag upp á Akranes að hitta fjölskylduna okkar þar. Göngutúrar, lestur, leti, sund, góður matur og félagsskapur einkennir þessa helgi og mikið elska ég það. Ég vona að þið séuð að njóta í botn með ykkar fólki. 


Súkkulaðibollakökur fyrir sælkera

  • 115 g súkkulaði, helst 50 - 70 % 
  • 90 g smjör, við stofuhita
  • 175 g sykur
  • 2 egg, aðskilinn 
  • 185 g Kornax hveiti 
  • 3/4 tsk lyftiduft
  • 3/4 tsk matarsódi
  • salt á hnífsoddi 
  • 2 1/2 dl mjólk
  • 1 tsk vanilla extract eða vanillusykur
  • 60 g dökkt súkkulaði, hakkað
Aðferð: 
  1. Hitið ofninn í 200°C. 
  2. Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði, hrærið vel í á meðan og passið að súkkulaðið brenni ekki. Leggið súkkulaðiblönduna til hliðar og kælið. 
  3. Þeytið saman sykur og smjör þar til blandan verður létt og ljós, blandið eggjarauðum saman við og þeytið áfram. 
  4. Næsta skref er að hella súkkulaði saman við og halda áfram að þeyta. 
  5. Sigtið saman hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt. Blandið hveitiblöndunni saman við súkkulaðiblönduna og hrærið vel saman. Hellið mjólkinni varlega saman við og vanillunni.
  6. Stífþeytið eggjahvítur og blandið þeim varlega saman við deigið með sleif. 
  7. Saxið dökkt súkkulaði og blandið við deigið í lokin. 
  8. Skiptið deiginu niður í bollakökuform og bakið við 200°C í 20 - 22 mínútur. Kælið kökurnar áður en þið setjið á þær krem. 


 Kremið sem ég sprautaði á kökurnar er hvítt súkkulaðikrem. Þegar ég baka bollakökur þá nota ég yfirleitt þetta krem, það er ofsalega bragðgott og það er mjög gott að skreyta kökur með þessu kremi. Ef ykkur finnst kremið ekki nógu stíft þá bætið þið meiri flórsykri saman við. 

  • 250 g smjör, við stofuhita
  • 400 - 450 g flórsykur
  • 150 g hvítt súkkulaði
  • 1 - 2 tsk vanilla extract eða sykur
  • 1 - 2 msk rjómi eða mjólk 
  • Gulur matarlitur 
  • Súkkulaðiegg
Aðferð: 
  1. Það er mikilvægt að gefa sér tíma fyrir þetta krem. Þeytið saman smjör og flórsykur í 5 - 6 mínútur, stoppið tvisvar sinnum og skafið meðfram hliðum. 
  2. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og blandið því saman við kremið. Þeytið kremið í 3 - 4 mínútur. Næsta skref er að bæta vanillu og rjóma/mjólk. Ég vil að kremið sé mjög mjúkt og þess vegna finnst mér frábært að nota smá rjóma en það er auðvitað hægt að nota mjólk líka. Þeytið kremið í 4 mínútur til viðbótar eða þar til þið eruð ánægð með kremið. Ef þið viljið lita kremið þá bætið þið smávegis af matarlit út í lokin, ég nota gel matarliti frá Wilton.










Njótið vel og eigið yndislega páska með fjölskyldunni ykkar. 

xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Monday, March 21, 2016

Vikuseðill

Nú styttist heldur betur í páskana og eflaust margir komnir í páskafrí og byrjaðir að njóta með fjölskyldu og vinum. Mig langaði að deila með ykkur vikuseðli sem er í betri kantinum að þessu sinn og ég vona að þið fáið hugmyndir að kvöldmatnum út vikuna. 

Njótið vel. 

Góður fiskréttur er alltaf fín hugmynd á mánudegi og þessi fiskur með rjómaosti og grænmeti er í betri kantinum.
Æðislegt kjúklingasalat með stökkum núðlum og fetaosti á þriðjudaginn, smá salat áður en veisluhöldin um helgina hefjast.
Bragðmikil karrí- og eplasúpa með kjúkling, en það má sleppa honum að bæta við meira af grænmeti. 
Páskafríið byrjað og nú má sko gera vel við sig á fimmtudegi, hvernig hljómar Risotto með stökku beikoni, aspas og parmesan? Borið fram með ísköldu hvítvínsglasi. 
Á föstudaginn ætla ég að hafa ljúffenga nautasteik í matinn og búa til einfalda en svakalega góða chili bernaise sósu sem allir elska. 
Á laugardaginn er ágætt að hvíla kjötið og bera fram laxasteik með blómkálsmauki og ferskum aspas, sannkölluð sælkeramáltíð. 
Á páskadag er nauðsynlegt að mínu mati að bera fram lambakjöt og fylltur lambahryggur með öllu tilheyrandi er alltaf góð hugmynd. 
Sunnudagsbaksturinn: Súkkulaðivika ársins að ganga í garð og það væri algjör hneisa að baka ekki eins og eina ómótstæðilega súkkulaðiköku og þessi blauta súkkulaðikaka með súkkulaðimús er afar góð.. ég segi ykkur það satt.


Ég vona að þið eigið yndislega viku framundan. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin sem notuð eru í þessar uppskriftir fást í verslunum Hagkaups. 






Thursday, March 17, 2016

Páskalambið, fylltur hryggur með ofnbökuðum kartöflum og soðsósu


Fylltur lambahryggur með sólkysstum tómötum, furuhnetum, ólífumauki, steinselju og sítrónuberki er afar ljúffeng steik sem passar einstaklega vel á veisluborðið um páskana. Með hryggnum er gott að hafa ofnbakaðar kartöflur í andafitu og auðvitað góða soðsósu, fullkomið fyrir þá sem vilja nostra aðeins við matargerðina og njóta í botn. Í þætti kvöldsins sýndi ég áhorfendum þessa einföldu og bragðmiklu uppskrift sem ég hvet ykkur til að prófa um páskana. 

Fylltur lambahryggur með tómat-og furuhnetupestói

Fyrir 4-6


1 lambahryggur ca. 2,5 kg, úrbeinaður 

Fylling:
  • 1 krukka sólkysstir tómatar 
  • 3 msk ólífutapende 
  • 70 g ristaðar furuhnetur
  • ½ laukur 
  • 2 hvítlauksrif 
  • 1 msk fersk steinselja 
  • Salt og nýmalaður pipar
  • 1 msk jómfrúarolía
  • Börkur af hálfri sítrónu 
  • 2 tsk smátt saxað rósmarín
  • ½ L vatn  

Grænmeti:
  • 2 laukar 
  • 4 hvítlaukar, heilir
  • 4-6 gulrætur 

Aðferð:
  1. Látið kjötborðið úrbeina lambahrygginn.
  2. Setjið öll hráefnin sem eiga að fara i fyllinguna í matvinnsluvél og maukið vel. 
  3. Setjið fyllingunni á milli hryggjarvöðvanna og leggið lundirnar þar ofan á. 
  4. Mótið rúllu og vefjið seglgarni utan um rúlluna og kryddið hryggginn með salti, pipar, sítrónuberki. Saxið einnig niður ferskt rósmarín og sáldrið yfir. 
  5. Skerið grænmetið í grófa bita og leggið í eldfast mót, setjið lambahrygginn yfir og hellið hálfum líter af soðnu vatni í fatið og inn í ofn við 180°c í 45-50 mínútur. Þegar 15 mínútur eru eftir af eldunartímanum er ágætt að hækka hitann í 200-210°C. 
  6. Leyfið kjötinu að hvíla í 10 mínútur áður en þið skerið það og berið fram, hellið soðinu frá og geymið fyrir sósugerð. 

Ofnbakaðar kartöflur í andafitu
  • 10-15 kartöflur að eigin vali
  • 2-3 msk andafita
  • 4 - 5 hvítlauksrif 
  • 3-4 rósmaríngreinar 

Aðferð: 
  1. Afhýðið kartöflurnar og sjóðið í vel söltu vatni í 10 mínútur. Eftir þann tíma takið þær upp úr pottinum og leggið í eldfast mót.
  2. Skerið niður hvítlauksrif og saxið ferskt rósmarín. Setjið 2 msk af andafitu í formið og veltið kartöflunum upp úr fitunni. 
  3. Kryddið til með salti og pipar. Bakið í ofni við 180°C 30 - 35  mínútur eða þar til kartöflurnar eru gullinbrúnar, það er gott ráð að snúa þeim við endrum og eins.  

Soðsósa
  • 300-400 ml soð 
  • ½ nautakraftsteningur 
  • Salt og pipar 
  • 500 ml rjómi
  • 2 tsk hveiti 
  • 1 msk olía 

Aðferð:
  1. Sigtið soðið í pott og blandið nautakrafstening og rjóma saman við.
  2. Kryddið til með salti og pipar. Leyfið sósunni að ná suðu og hrærið vel í á meðan. 
  3. Blandið saman í skál hveiti og olíu og þykkið sósuna með hveitblöndunni. 
  4. Berið strax fram með kjötinu.









Missið ekki af Matargleði Evu öll fimmtudagskvöld á Stöð 2 klukkan 19:25. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups. 


Æðislegt andasalat með ristuðum valhnetum, perum og geitaosti.



Í þætti kvöldsins lagði ég áherslu á rétti sem tilvalið er að elda um páskana. Þetta andasalat með steiktum perum, stökkum valhnetum og geitaosti er yfirgengilega gott. Andabringur eru auðvitað algjört sælgæti og eru frábærar í salöt, páskamaturinn þarf alls ekki að vera þungur í maga og tilvalið fyrir þá sem kjósa léttari rétti að bera þennan rétt fram um páskana. 

Andasalat með stökkum valhnetum og geitaosti

  • 2 andabringur
  • 1 poki klettasalat
  • 1 granatepli
  • 2 perur
  • 1 tsk ólífuolía
  • 1 tsk smjör
  • Handfylli ristaðar valhnetur
  • Geitaostur, magn eftir smekk
  • Salatdressing
  • 1 tsk rauðvínsedik
  • 1 dl jómfrúarolía
  • 2 skallottulaukar
  • 1 tsk dijon sinnep
  • Salt og pipar


Aðferð:
  1. Skerið aðeins í andabringurnar og steikið á pönnu. Kryddið bringuna til með salti og pipar og steikið bringurnar í 3-4 mínútur á hvorri hlið. Setjið andabringurnar í eldfast mót og inn í ofn við 180°C í 8 - 10 mínútur. Eins og með allt kjöt er mikilvægt að leyfa því að hvíla í fáeinar mínútur áður en það er skorið, en það kemur í veg fyrir að safinn leki út og kjötið verði þurrt. 
  2. Skerið perur í sneiðar og steikið upp úr olíu og smjöri í 1-2 mínútur á hvorri hlið.
  3. Þurristið valhnetur á pönnu. 
  4. Útbúið franska salatdressingu, saxið niður skallottulauk mjög smátt og setjið í skál. Blandið jómfrúarolíu, sinnepi og rauðvínsediki saman við og hrærið vel í dressingunni.
  5. Veltið kálinu upp úr dressingunni og leggið salatið á fat, raðið perum yfir, skerið andabringuna í sneiðar og leggið yfir, myljið geitaosti, sáldrið valhnetum og dreifið granateplum yfir salat í lokin. 
  6. Berið strax fram og njótið vel. 


Missið ekki af Matargleði Evu öll fimmtudagskvöld klukkan 19:25 á Stöð 2. 

xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups. 

Súkkulaðikaka með Frosting kremi



 Súkkulaðibotnar

3 bollar hveiti (Amerísk mæling, 1 bolli = 2,4 dl)
2 bollar sykur
3 egg
2 bollar AB mjólk
1 bolli bragðdauf olía
5 msk kakó
2 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
2 tsk vanilludropar eða sykur

Aðferð:

Blandið öllum hráefnum saman í skál, hrærið í nokkrar mínútur eða þar til deigið verður slétt og fínt. Hellið deiginu í smurð bökunarform og bakið við 180°C í 25 - 30 mínútur. Það er gott ráð að stinga hníf í kökuna eftir 25 mínútur og ef hnífurinn kemur hreinn upp úr er kakan klár en annars þarf hún lengri tíma. Ofnar eru auðvitað eins misjafnir eins og þeir eru margir.

Það er mikilvægt að leyfa kökunni að kólna alveg áður en hún er skreytt með kreminu.


Vanillu Frosting

4 eggjahvítur
2 1/2 dl sykur
1 tsk vanillusykur

Aðferð: Þeytið eggjahvítur og sykur saman þar til froða fer að myndast. Færið skálina, setjið yfir sjóðandi vatn og hrærið þar til blandan byrjar að þykkna og hitna. Takið þá skálina frá vatninu og hrærið áfram í hrærivélinni, bætið vanillu saman við á því stigi. Hrærið áfram þar til kremið kólnar og verður orðið stíft. (Alveg eins og með marengs, þið eigið að geta hvolft skálinni án þess að kremið hreyfist) Ég setti nokkra dropa af gulum matarlit út í kremið í lokin, mér finnst gel matarlitirnir frá Wilton lang bestir. Mæli með þeim. 




 Ég vona að þið eigið frábæra páska með fjölskyldu og vinum. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefni sem notuð eru í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.