Monday, December 21, 2015

Fyllt kalkúnabringa með öllu tilheyrandi


Ég var búin að deila með ykkur eftirréttinum sem ég gerði fyrir hátíðarblað Hagkaups fyrir jólin en það var dásamleg After Eight terta sem ég mæli með að þið prófið en nú er komið að því að deila aðalréttinum með ykkur. Fyllt kalkúnabringa með waldorf salati, rósakáli, sætri kartöflumús og villisveppasósu sem allir elska. Þessi máltíð verður á boðstólnum hjá mér þessi jólin og ég get varla beðið. Ég elska kalkún og er sérstaklega hrifin af kalkúnabringu, hún er einstaklega safarík og bragðmikil. Tala nú ekki um með góðu meðlæti...nokkrir dagar í þessa ljúffengu máltíð sem ég vona að flestir prófi. 

Njótið vel kæru lesendur. 




Fyllt hátíðarkalkúnabringa með öllu tilheyrandi.


Fylling

  • 40 g smjör
  • 200 g sveppir
  • 2 meðalstórir skallottulaukar
  • 1 sellerí stilkur
  • 1 epli
  • 100 g beikon
  • 3 msk rjómaostur
  • tímían
  • steinselja
  • kalkúnakrydd
  • 4 döðlur
  • salt og pipar


Aðferð:

Hitið smjör á pönnu og steikið sveppi, lauk, sellerí, epli og beikon í örfáar mínútur. Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél og maukið vel saman.

Kalkúnabringan

Aðferð: 

Vasar skornir í bringuna og fyllingunni stungað ofan í. Bringurnar brúnaðar á pönnu á háum hita á öllum hliðum, kryddið til með salti, pipar og kalkúnakryddi. Gott er að kreista smá sítrónusafa yfir. Leggið bringuna í eldfast mót og inn í ofn við 170°C í 50 – 55 mínútur, hækkið hitann undir lokin til þess að fá góða grillaða húð. Steikingartíminn fer eftir stærð en best er að nota kjöthitamælir og þegar hitamælirinn sýnir 65°C er bringan tilbúin. Leyfið bringunni að standa í 10 mínútur áður en hún er skorin og borin fram.

Sætkartöflumús með piparosti
  • 5–600 g sætar kartöflur
  • 1–2 msk. smjör
  • smá rjómi
  • 1 – 2 msk rjómaostur
  • salt og pipar




Aðferð:Sætar kartöflur eru skrældar og skornar í svipað stóra bita. Þær eru svo settar í pott og vatn rétt látið fljóta yfir. Suðan látin koma upp og soðið í 25–30 mínútur eða þar til að kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Vatninu er síðan hellt af. Kartöflurnar stappaðar fínt með smjöri og bragðbættar með rjóma, rjómaosti, salti og pipar.



Rósakál steikt á pönnu með beikoni og rjóma
  • 500 g ferskt rósakál
  • 100 g beikon
  • 1½  dl rjómi
  • salt og pipar


Aðferð:Rósakálið er skolað, hreinsað og skorið í tvennt. Sjóðið rósakálið í léttsöltu vatni í 2–3 mínútur. Vatninu er síðan hellt af. Setjið smjörklípu á pönnu, skerið beikonið í litla bita og steikið á pönnunni. Bætið rósakálinu saman við beikonið og steikið í 5 mínútur við vægan hita. Rjómanum er síðan bætt út á pönnuna og kryddað til með salti og pipar. Leyfið rósakálinu og beikoninu að malla í rjómanum við vægan hita í nokkrar mínútur.



Waldorfsalat
  • 2 græn epli
  • 1½ sellerí
  • 25 græn vínber
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2–3 msk. þeyttur rjómi
  • 2 dl valhnetur, þurrristaðar á pönnu
  • 1 tsk. agavesíróp
  • Súkkulaði


Aðferð:Kjarnhreinsið eplin, flysjið og skerið í litla bita. Skerið sellerí í litla bita. Skerið vínber í tvennt. Grófhakkið hneturnar og þurrristið á pönnu. Pískið saman sýrðan rjóma og rjóma. Blandið síðan öllu saman í skál og sáldrið smá súkkulaði yfir í lokin. Geymið í kæli þar til salatið er borið fram.

Villisveppasósa
  • 1/2 L rjómi 
  • 1/2 - 3/4 villisveppaostur frá MS
  • 1 teningur sveppakraftur
  • salt og pipar


Aðferð: Bræðið ostinn í rjómanum við vægan hita, hrærið stöðugt í á meðan og bætið einum sveppatening saman við. Kryddið til með salti og pipar. Sósan er tilbúin um leið og osturinn er bráðnaður.



xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Öll hráefni í þessar uppskrifir fást í verslunum Hagkaups.

No comments:

Post a Comment