Thursday, October 29, 2015

Ofnbakaðir þorskhnakkar í paprikusósu



Ofnbakaður fiskur er alltaf í miklu uppáhaldi, þó það þurfi ekki að hafa mikið fyrir góðu hráefni þá er virkilega gott að gera djúsí fiskrétti af og til. Ég elska þá að minnsta kosti og ég hef tekið eftir því hér á síðunni að lesendur mínir eru sammála. Ég eldaði þennan góða rétt í vikunni, ég tók bara það sem ég átti til inn í ísskáp og útkoman var mjög góð. Svo góð að ég borðaði yfir mig og gott betur en það. Mæli með þið prófið fiskréttinn og ég vona að þið njótið vel. 




Ofnbakaðir þorskhnakkar með paprikuosti


  • 1 msk ólífuolía eða smjör 
  • 1 laukur, smátt saxaður
  • 4 gulrætur, smátt skornar 
  • 1 rauð paprika, smátt skorin
  • 1/2 blómkálshöfuð, smátt skorið
  • 1/2 spergilkálshöfuð, smátt skorið
  • 700 g þorskhnakkar 
  • 3/4 paprikuostur eða heill, smátt skorinn
  • 250 ml rjómi 
  • Salt og nýmalaður pipar 
  • 100 g rifinn ostur 
Aðferð: 

  1. Steikið grænmetið upp úr olíu eða smjöri í nokkrar mínútur eða þar til grænmetið fer að mýkjast. 
  2. Bætið ostinum og rjómanum saman við, leyfið grænmetisblöndunni að malla í smá stund og kryddið til með salti og pipar. Þegar osturinn er allur bráðinn er blandan tilbúin. 
  3. Skerið þorskhnakkana í bita og leggið í eldfast mót, kryddið til með salti og pipar. Hellið grænmetiðsblöndunni og rifnum osti yfir og bakið við 180°C í 25 - 30 mínútur. 
  4. Berið fram með fersku salati og hrísgrjónum.  



Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 



Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.



Súkkulaði Panna Cotta úr Matargleði Evu

Súkkulaðibúðingur með heitri berjasósu


500 ml rjómi
150 g suðusúkkulaði
2 msk sykur
fræin úr 1 vanillustöng
2 plötur matarlím

Aðferð: 

Leggið matarlímsblöð í kalt vatn í 4 – 6 mínútur.
Á meðan hitið þið rjóma að suðu og bætið súkkulaði saman og bræðið í rólegheitum.
Hrærið í á meðan og þegar súkkulaðið er bráðnað bætið þið sykri og vanillu saman við,  í lokin kreistið þið vökvann frá matarlímsblöðum og hrærið út í vanillublönduna.
Hellið í skálar og geymið í kæli að minnsta kosti í tvær til þrjár klukkustundir, best  yfir nótt. 

Heit berjasósa með vanillu

3 dl bláber
3 dl hindber
2 dl sykur
safinn og börkur af hálfri appelsínu
½ tsk kanill
fræin úr 1 vanillustöng  

Aðferð:

Setjið öll hráefnin í pott og náið upp suðu, leyfið sósunni að malla í 3 – 5 mínútur. Berið fram með súkkulaðibúðingnum og njótið vel.

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.

Wednesday, October 28, 2015

Ofnbakaðar brauðsnittur í einum grænum



Ég fékk vinkonur mínar í sunnudagskaffi um daginn og ákvað að gera nokkrar snittur, mér finnst nefnilega mikilvægt að hafa eitthvað brauðmeti á boðstólnum og þá sérstaklega ofnbakað. Með öllum sætu kökunum þarf að vera brauðbiti inn á milli, til að jafna þetta út. Ég elska góða osta og ákvað að gera einfaldar brauðsnittur með Dala Koll og mangó chutney. Snitturnar kláruðust og ég á eftir að gera þessar oftar en einu sinni í viðbót. Mig langar líka að búa til mitt eigið mangó chutney í bráð, en það fær að bíða aðeins til betri tíma og auðvitað fáið þið að fylgjast með því þegar ég ræðst í það verkefni. 


Ofnbakaðar brauðsnittur með hvítmygluosti og mangó chutney


  • 1 snittubrauð
  • Dala kollur 
  • Mangó chutney 
  • Steinselja
Aðferð:

1. Skerið snittubrauðið í jafn stórar sneiðar. 
2. Leggið eina til tvær ostsneiðar yfir hverja brauðsneið.
3. Setjið góða matskeið af mangó chutney yfir ostinn. 
4. Bakið við 180°C í 5 - 7 mínútur eða þar til osturinn verður gullinbrúnn. 
5. Skreytið snitturnar með steinselju og berið strax fram. 

Ofboðslega einfalt og gott. Tilvalið þegar þið eigið von á gestum með skömmum fyrirvara eða þegar þið viljið gera vel við ykkur á köldu vetrarkvöldi.





Það þarf ekki að vera flókið að útbúa veitingar og svona réttir slá alltaf í gegn.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.



Sunday, October 25, 2015

Einfaldasta brauð í heimi og guðdómleg bruschetta með Mozzarella




Í gærkvöldi ákvað ég að skella í einfaldasta brauð veraldar, já ég er að segja ykkur það satt. Ég átti hveiti, þurrger, salt og vatn... og meira var það ekki. Það eina sem þessi uppskrift krefst er pínu þolinmæði, brauðið þarf að hefast í 12 - 24 klst en ef þið skellið í deigið að kvöldi þá er það tilbúið um morguninn og eina sem þarf þá að gera er að skella því inn í ofn og eftir 45 mínútur er fína og góða brauðið tilbúið. (sem lítur út fyrir að hafa verið rosa mikil vinna)

Brauðið er auðvitað best nýbakað og ákvað ég að nota það í bruschettu með tómötum og Mozzarella. Algjört lostæti og svo einfalt, ég elska allt sem er einfalt þá sérstaklega á sunnudögum þegar manni langar í eitthvað gott en nennir kannski ekki of miklu vinnuframlagi í eldhúsinu ;) 



Pottabrauðið vinsæla 

Brauðbaksturinn verður ekki einfaldari en einmitt þessi, þetta brauð er mjög vinsælt víða um heim og það er ekki að ástæðulausu. Pottabrauð sem öllum þykir gott, vel stökkt að utan og mjúkt að innan. 
  • 500 g Kornax hveiti 
  • 4 dl kalt vatn 
  • 1/4 tsk þurrger 
  • 1,5 tsk salt 
Aðferð:


  1. Blandið öllum hráefnum saman í skál, deigið er svolítið klístrað og blautt en þannig á það að vera.  
  2. Setjið plastfilmu yfir skálina og látið deigið standa við stofuhita í lágmark 12 klst - 24 klst. Mér finnst best að skella í þetta brauð áður en ég fer að sofa, þá get ég annaðhvort bakað það um morguninn eða þegar ég kem heim eftir vinnu og borið það fram með kvöldmatnum. 
  3. Eftir 12 - 24 klst stráið þið hveiti á borðflöt og leggið deigið ofan á, hnoðið í smá stund eða þar til deigið er ekki klístrað. Leggið viskastykki yfir deigið og leyfið því að hefast í klukkustund til viðbótar. 
  4. Hitið ofninn í 250°C. Setjið ofnpott með loki inn í ofn í 15 mínútur. (Potturinn verður að vera heitur þegar deigið fer í hann). Setjið deigið í pottinn og bakið í 30 mínútur með lokinu á og í 15 mínútur til viðbótar án þess að hafa lok. 
  5. Leyfið brauðinu að kólna í svolitla stund áður en þið berið það fram.




Bruschetta með kirsuberjatómötum og mozzarella 

  • Gott brauð t.d. pottabrauðið  
  • 2 msk ólífuolía 
  • 2 marin hvítlauksrif
  • 1 askja kirsuberjatómatar 
  • Litlar Mozzarellakúlur, magn eftir smekk 
  • 1 msk. balsamik edik
  • Smátt söxuð fersk basilíka, handfylli
  • Salt og nýmalaður pipar  
  • Klettasalat
Aðferð: Hitið ofninn í 180°C. Skerið brauðið í sneiðar og leggið á pappírsklædda ofnplötu, sáldrið olíu yfir brauðsneiðarnar og bakið í ofni í nokkrar mínútur. Þegar brauðið er tilbúið og orðið stökkt nuddið sárinu á hvítlauksrifinu ofan á hverja brauðsneið. (Ég notaði nýbakað pottabrauð og sleppti því að rista brauðið í ofni, það var nógu heitt og gott)
Skerið tómata í tvennt og skafið innan úr þeim, Mozzarella osturinn er skorinn í bita og hvítlaukurinn pressaður. Blandið öllu saman ásamt basilíku, olíu, balsamik edik og salti og nýmöluðum pipar. Setjið klettasalat ofan á brauðið og því næst tómatblönduna. Í lokin er voða gott að dreifa smá balsamik gljáa yfir svona rétt til að setja punktinn yfir i-ið. 


Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups. 



Saturday, October 24, 2015

Íslenskar pönnukökur með Nutella og bönunum


Í morgun langaði mig svo í pönnukökur og auðvitað skellti ég í þessar einföldu og bragðgóðu pönnsur sem flestir kannast við. Íslenskar pönnukökur eru virkilega góðar og hægt að bera þær fram á ýmsa vegu t.d. með morgunkaffinu, í kaffitímanum með sultu og rjóma og svo í eftirrétt með ferskum berjum, súkkulaðisósu og ís. Það tekur enga stund að búa til ljúffengar pönnukökur og ilmurinn sem fer um heimilið er dásamlegur. Svona eins og að koma heim til ömmu á sunnudegi, það er nú ekkert sem toppar það. Amma hans Hadda bakar bestu pönnukökur sem ég hef smakkað og hún hefur gefið mér góð ráð varðandi pönnukökubaksturinn og pönnukökurnar mínar eru strax betri eftir að ég fór að hennar ráðum. Ömmur eru gull. 


Íslenskar pönnukökur

ca. 18 - 20 pönnukökur
  • 2 Brúnegg
  • 1 dl sykur 
  • 3 dl Kornax hveiti 
  • 1 tsk lyftiduft 
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1/2 tsk kardimommudropar 
  • smá salt 
  • 3 msk brætt smjör
  • 4 - 5 dl mjólk, eða eftir þörfum 

Aðferð: 

1. Þeytið egg og sykur saman í hrærivél þar til eggjablandan verður létt og ljós. 
2. Bætið þurrefnum saman við og hrærið, hellið vanillu, kardimommudropum, smjöri og mjólk saman við varlega. 
3. Hrærið í deiginu með sleif á  þessu stigi, mér finnst það langbest en þá get ég betur stjórnað áferðinni á deiginu. Pönnukökudeigið á að vera þunnt og þið getið prófað að steikja eina pönnuköku, ef ykkur finnst hún of þykk þá bætið þið einfaldlega meiri mjólk saman við þar til þið eruð ánægð. 

Berið pönnukökurnar strax fram og þá gjarnan með Nutella og bönunum eins og ég fékk mér í morgun. Annars finnst mér fátt betra en pönnukökur með sultu og rjóma. Ójá, ég gæti haldið áfram að telja upp möguleikana en nú er komið að ykkur að prófa og ég vona að þið njótið vel. 




xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.


Thursday, October 22, 2015

Fimm myndir


Í síðustu viku fór ég á konfektnámskeið hjá Nóa Síríus. Axel Þorsteinsson yfirkonditor á Apótek Resturant sýndi okkur hvernig búa má til ekta konfekt á einfaldan hátt. Þetta var brjálæðislega skemmtilegt og áhugavert, ég hlakka til að útbúa ljúffenga konfektmola fyrir jólin og ég mæli með þessu námskeiði. Frekari upplýsingar um námskeiðið má finna hér. 


Ég kaupi mér alltaf blóm einu sinni í viku, heimilið verður fallegra með fínum blómum. 


Ég byrjaði daginn á kaffibolla með æsku idolinu mínu honum Sigga Hall í vikunni. Ég ólst upp við að horfa á Sigga í sjónvarpinu eins og margir aðrir. Þessi stórkostlegi maður verður í viðtali í Matarvísi fylgiriti Fréttablaðsins sem kemur út í næstu viku. 


Ég bakaði þessa bleiku köku handa vinkonu minni sem fékk nafnið sitt fallega um daginn. 


Systir mín var á landinu og yngsti strákurinn hennar hann Baltasar Mar var með í för. Hann er jafn gamall Ingibjörgu Rósu minni og það er svo gaman að sjá þau saman, krúttsprengjur! Vildi óska þess að þau ættu heima hér á Íslandi. Vonandi ertu að lesa þetta Maren mín. 


Þetta voru fimm myndir eins og ég hef verið með af og til á blogginu og  ágætt að rifja það aðeins upp. Ágætt að skella inn myndum inn á milli uppskrifta. Svo minni ég auðvitað á matreiðsluþáttinn minn Matargleði Evu sem byrjar klukkan 19:50 í kvöld á Stöð 2. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Tuesday, October 20, 2015

Mæli með.... Public House


Ég elska að fara út að borða og njóta í góðra vina hópi. Úrvalið af góðum veitingastöðum er gott og það er svo gaman að fara út að borða, allir staðir troðfullir af fólki og miðbærinn iðar af mannlífi. Ég og vinkona mín hún Dísa fórum út að borða á Public House og mamma mía hvað við fengum góðan mat. Bragðlaukarnir dönsuðu hreinlega... já við erum ekkert að skafa af því. Við fórum í óvissuferð og fengum að smakka það besta af matseðlinum, mitt uppáhald var Faux pizza sem er Japönsk gyoza pizza með geitaosti. Algjört lostæti! 

Við sátum í nokkrar klukkustundir, borðuðum, drukkum hvítvín og spjölluðum. Ég mæli með að þið farið á Public House, maturinn og þjónustan til fyrirmyndar og verðlagið gott fyrir budduna. Að fara í fín föt, setja á sig varalit og eiga notalega kvöldstund með vinum er hreint út sagt dásamlegt... já þetta er alveg nauðsynlegt að gera vel við sig af og til.

Ég ætla í samstarfi við Public House að gefa heppnum lesenda gjafabréf fyrir 2 í óvissuferð fyrir sælkera. Eina sem þið þurfið að gera er að skrifa nafn og netfang í athugasemd fyrir neðan þessa færslu. Dregið verður út á föstudaginn.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir





Sunday, October 18, 2015

Oreo brownies sem bráðna í munni


Vinkonur mínar komu til mín í sunnudagskaffi og bauð ég þeim meðal annars upp á þessa sjúklega góðu Oreo súkkulaðiköku sem bráðnar í munni. Þegar súkkulaði og Oreo koma saman er veisla, svo mikið er víst. Mér finnst brownies eða brúnkur alltaf svo góðar, stökkar að utan og mjúkar að innan. Það má svo líka leika sér með þessa uppskrift, skipta Oreo út fyrir annað góðgæti. Allt er nú hægt! Ég þori að lofa ykkur því að þið eigið eftir að baka þessa aftur og aftur... hún er það góð. 


Oreo brownie

  • 170 g smjör
  • 190 g súkkulaði 
  • 3 Brúnegg + 2 eggjarauður
  • 160 g púðursykur
  • 1 tsk lyftiduft 
  • salt á hnífsoddi
  • 1 msk kakó 
  • 3 msk Kornax hveiti 
  • 160 g Oreo kexkökur 
  • súkkulaðisósa að eigin vali 



Aðferð:
  1. Hitið ofninn í 180°C. (blástur)Bræðið saman smjör og súkkulaði við vægan hita í potti. 
  2. Þeytið egg, eggjarauður og púðursykur saman þar til eggjablandan verður létt og ljós. 
  3. Hellið súkkulaðiblöndunni í mjórri bunu við eggjablönduna og hrærið vel saman. 
  4. Bætið lyftidufti, salti, kakó,hveiti og smátt söxuðu Oreo út í deigið og blandið varlega saman með sleif. 
  5. Hellið deiginu í smurt form (ég notaði 20 cm ferkantað kökuform) og bakið við 180°C í 25 – 30 mínútur. Leyfið kökunni að kólna alveg áður en þið takið hana úr forminu. Berið fram með rjóma eða ís og súkkulaðisósu sem þið sáldrið yfir. 








Nú ætla ég að skottast fram í eldhús og næla mér í aðra sneið, það er heppilegt að það var svolítill afgangur í dag haha. Ég ætla síðan að koma mér vel fyrir framan sjónvarpið. 
Svona eiga sunnudagskvöld að vera.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.