Saturday, August 29, 2015

Marengsbomba með ómótstæðilegu Daim kremi


Það var svo gott að vakna í rólegheitum með Ingibjörgu Rósu minni í morgun en undanfarna daga höfum við verið á fullu að koma okkur út í vinnu og til dagmömmunnar, morgnarnir eru þess vegna ekkert svo rólegir á þessu heimili á virkum dögum. Helgarfríin eru kærkomin og við mæðgur byrjuðum á því að baka marengsköku handa ömmu Stínu. Ágætis morgunverk, á meðan marengsinn var í ofninum fórum við í göngutúr og í búðina að kaupa ávexti og rjóma. Amma Stína elskar Daim og marengskökur, hún gerði alltaf heimsins bestu Daim ísköku þegar við vorum yngri. Ég þarf endilega að finna þá uppskrift og deili henni þá að sjálfsögðu með ykkur. Það er gaman að baka fyrir fólkið sitt og áttum við ljúfa stund með henni og öðrum fjölskyldumeðlimum í dag. 


Botnar:
  • 4 Brúnegg, aðskilin 
  • 200 g sykur 
  • 3 dl mulið kornflex
  • 1 tsk vanilla extract 
  • 1/2 tsk lyftiduft
Aðferð: 
  1. Hitið ofninn í 120°C. (blástur)
  2. Stífþeytið eggjahvíturnar og bætið sykrinum smám saman út í. 
  3. Handhrærið kornflexinu út í ásamt lyftidufti og vanillu.
  4. Smyrjið marensinum í hring á smjörspappírsklædda ofnplötu (þurfið tvær plötur fyrir 2 botna) og bakið í klukkustund. 


 Fylling og krem 

  • 400 ml rjómi
  • 1 eggjarauða
  • 1 msk flórsykur
  • 100 g Daim súkkulaði 
  • jarðarber
  • vínber
Aðferð:
  1. Þeytið rjóma, bætið eggjarauðunni og flórsykrinum saman við þegar hann er léttþeyttur og þeytið áfram þar til kremið hefur blandast vel saman. 
  2. Skerið niður jarðaber og vínber, bætið ávöxtunum út í rjómann með sleikju og daim súkkulaðinu. 
Krem
  • 1 dl rjómi 
  • 2 lítil Daim súkkulaði 
  • 50 g dökkt súkkulaði
  1. Blandið öllu saman og hitið við vægan hita í potti, hrærið í á meðan. Ef ykkur finnst kremið of þunnt þá bætið þið meiri súkkulaði saman við. Kælið og hellið yfir kökuna. Skreytið kökuna gjarnan með ferskum berjum. 



 Algjör bomba sem hittir í mark.

Njótið vel. 

xxx 

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Allt hráefnið sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.


Sunday, August 23, 2015

Fallegir og ljúffengir bitar í veisluna


Í sumar útskrifaðist Haddi frá Háskólanum í Reykjavík og héldum við smá boð hér heima. Ég ákvað að vera með smárétti, ég bauð meðal annars upp á snittur og litlar kökur. Marengskökur og súkkulaðikökur eru yfirleitt vinsælastar á veisluborðinu og þess vegna ákvað ég að bjóða upp á litlar Pavlovur og franska súkkulaðiköku með ljúffengu kremi. Ég var mjög ánægð með útkomuna og skreytti kökurnar með ferskum berjum og blómum, það kom ákaflega vel út og var mikið fyrir augað. Þegar ég held boð eða á von á mörgum í mat þá finnst mér best að velja rétti sem ég get undirbúið með smá fyrirvara, ég gat bakað frönsku súkkulaðikökuna fyrr í vikunni og setti hana inn í frysti. Bakaði marengsinn kvöldinu áður og það eina sem ég átti eftir að gera var að skreyta kökurnar og það tekur ekki langa stund. Ég vona að þetta veiti ykkur innblástur fyrir næsta boð eða næstu veislu... já eða bara næst þegar ykkur langar í góðan bita. 


Litlar Pavlovur með sítrónubúðing og rjóma 

  • 6 Brúnegg (aðskilinn) 
  • 300 g sykur
  • 1 ½ tsk mataredik
  • 1 tsk vanilla extract eða dropar
  • Salt á hnífsoddi
1. Þeytið eggjahvítur með salti, bætið sykri saman við í þremur skömmtum
og þeytið vel á milli. 
2. Bætið ediki og vanilludropum saman við þegar
marensinn er orðinn stífur. 
3. Skiptið deiginu niður í litlar kökur á pappírsklædda ofnplötu. 
4. Bakið marensinn við 100°C í 90 mín. Slökkvið á ofninum, opnið hurðina og látið marensinn kólna. Ef þið hafið tíma þá er gott að gera þetta kvöldinu áður en þið ætlið að nota kökurnar og leyfa þeim að kólna í ofninum yfir nóttina. 
  • 200 ml rjómi 
  • Vanillusykur 
  • Sítrónubúðingur (Lemon curd)  

*Geymið gjarnan eggjarauðurnar og notið þær í bakstur eða þá til að búa til sítrónubúðing (Lemon curd). Ég keypti að vísu tilbúinn sítrónubúðing í Hagkaup frá merkinu Stonewall Kitchen.

Setjið eina matskeið eða fleiri, fer eftir smekk ofan á marengskökurnar. Þeytið rjóma og setjið væna skeið af rjóma yfir sítrónubúðinginn. Skreytið kökurnar gjarnan með ferskum berjum, blómum og sigtið í lokin flórsykri yfir. 





Frönsk súkkulaðikaka

Botn:
  • 200 g sykur
  • 4 Brúnegg
  • 200 g suðusúkkulaði
  • 200 g smjör
  • 1 dl Kornax hveiti


Aðferð:

1. Hitið ofninn í 180°C (blástur). 
2. Þeytið sykur og egg saman þar til blandan verður létt og ljós. 
3. Bræðið saman smjör og súkkulaði við vægan hita. Blandið hveitinu saman við eggjablönduna, sumir vilja sleppa hveitinu en þá verður kakan sérstaklega blaut. 
4. Bætið súkkulaðiblöndunni varlega saman við í lokin. 
5. Smyrjið bökunarform, ég notaði að þessu sinni ferkantað form vegna þess að ég ætlaði að skera kökuna niður í litla bita. Þið getið auðvitað notað hringlaga en það fer bara eftir því hvernig þið ætlið að bera kökuna fram. 
6. Bakið kökuna við 180°C í 30 mínútur. Kælið hana mjög vel áður en þið setjið kremið á hana. 

Súkkulaðikrem 
  • 150 g suðusúkkulaði eða annað gott súkkulaði
  • 70 g smjör 
  • 2 msk síróp 

Aðferð: 


1. Brjótið súkkulaðið og bræðið í smjörinu við vægan hita, ekki fara frá pottinum. Það er mjög auðvelt að brenna þessa góðu sósu. 
2. Hrærið vel í sósunni og bætið sírópinu saman við í lokin. 
3. Hellið sósunni yfir kökuna. Þessi sósa er ómótstæðilega góð og það er tilvalið að bera hana fram með fleiri kökum eða ísréttum. Skreytið kökuna gjarnan með ferskum berjum, það gerir kökuna enn betri. 


Þetta var stórgóður dagur með fjölskyldu og vinum. 

Mig langar að benda ykkur á Snapchattið mitt ef þið viljið fylgjast með mér þar - en ég hendi inn misgáfulegum innslögum og þið getið fylgst með þáttargerðinni og fl. Ég heiti einfaldlega evalaufeykjaran á Snapchat.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Allt hráefnið sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups. 


Friday, August 21, 2015

Pönnupizza með bbq kjúkling


Ég fékk svakalega fína pönnu frá systkinum mínum í afmælisgjöf og hef ég notað hana í mjög margt. Þessi panna má fara inn í ofn og veitir mér þess vegna þann möguleika að gera pönnupizzur sem eru að mínu mati mikið betri en venjulegar pizzur. Mig langar að deila uppskrift að ómótstæðilegri pizzu með bbq kjúkling, klettasalati og nýrifnum parmesan. Hljómar það ekki vel? Fullkomin helgarpizza. 






Pizzabotn 

240 ml volgt vatn (mikilvægt að vatnið sé volgt)
2 ½ tsk þurrger 
1 msk hunang
400 – 450 g brauðhveiti frá Kornax (í bláa pakkanum)
1 tsk salt 
2 msk olía 

Aðferð: 

  1. Blandið volgu vatni, geri og hunangi saman í skál. 
  2. Leggið viskastykki yfir skálina og leyfið gerinu að leysast upp í rólegheitum, eða í 7-10 mínútur. Um leið og það byrjar að freyða í skálinni er gerblandan tilbúin. 
  3. Hellið gerblöndunni í hrærivélaskál og bætið öllum hráefnum saman við, það er góð regla að bæta hveitinu smám saman við.  Það gæti þurft minna en meira af hveitinu.
  4. Látið hnoðast í vélinni í 6 – 10 mínútur eða þar til deigið er orðið í laginu eins og kúla, einnig á það ekki að vera klístrað. 
  5. Setjið viskastykki yfir hrærivélaskálina og leyfið deiginu að hefast í klukkustund eða þar til þar hefur tvöfaldast að stærð.
  6. Fletjið deigið út, þetta deig dugar í tvær pizzur.
  7. Hitið smávegis af olíu á pönnu, passið að pannan sé mjög heit þegar þið setjið deigið á pönnuna. 
  8. Steikið pizzabotninn á pönnunni í nokkrar mínútur eða þar til botninn er orðinn stökkur, bætið þá kjúklingnum ofan á og sáldrið ferskum mozzarella osti yfir. 
  9. Bakið í ofni við 200°C í 5 - 7 mínútur eða þar til osturinn er gullinbrúnn.

BBQ kjúklingur

Ólífuolía
300 g kjúklingakjöt ofan á eina pizzu
1 meðalstór rauðlaukur
BBQ sósa að eigin vali
salt og nýmalaður pipar

Aðferð:

  1. Hitið ólíuolíu á pönnu og steikið kjúklinginn, kryddið til með salti og pipar. 
  2. Skerið rauðlauk og bætið honum út á pönnuna. 
  3. Bætið bbq sósunni í lokin og leyfið þessu á malla í 3 - 4 mínútur. 









Berið pizzuna fram með klettasalati, kirsuberjatómötum og nýrifnum parmsan.

Njótið vel og góða helgi.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups. 

Thursday, August 20, 2015

Nautalund með bernaise og piparostasósu




Í síðustu viku fengum við góða gesti í mat og mig langaði til þess að bjóða þeim upp á eitthvað svakalega gott, ég fór út í Hagkaup og það fyrsta sem fangaði auga mitt í kjötborðinu var girnileg nautalund og sömuleiðis gargaði Bernaise sósan á mig sem var þarna líka. Ég stóðst ekki mátið, keypti kjötið, sósuna og gott meðlæti. Máltíðin var afar ljúffeng, ég byrjaði á því að elda kartöflurnar og á meðan þær voru í ofninum eldaði ég kjötið. Eldunin var afar einföld eða alveg eins og okkur þykir kjötið best. Hér kemur uppskriftin að nautalund með Hasselback kartöflum og piparostasósu. (Bernaise sósan var keypt í þetta sinn og því fylgir ekki uppskrift haha).


Nautalundir 
  • Ólífuolía 
  • 800 g nautalund 
  • Smjör
  • Salt og nýmalaður pipar
Aðferð: 
  1. Hitið olíu á pönnu, kryddið kjötið með salti og pipar og setjið á pönnuna. Það er afar mikilvægt að pannan sé mjög heit. 
  2. Steikið kjötið á öllum hliðum þar til það verður brúnt og fallegt, í lokin bætið þið smjörklípu út á pönnuna og hellið smjörinu yfir kjötið. 
  3. Setjið kjötið í eldfast mót, hækkið hitann á ofninum í 200°C og eldið kjötið í 10 – 12 mínútur. 
  4. Leyfið kjötinu að hvíla í 8 – 10 mínútur áður en þið skerið það í bita. 
  5. Þessi steiking er medium/medium rare. 

Hasselback kartöflur
  • Stórar bökunarkartöflur, magn eftir smekk
  • Smjör
  • Ólífuolía 
  • Salt  
Aðferð:
  1.  Skerið bökunarkartöflunar í tvennt  og skerið raufar niður í þær með stuttu millibili án þess að skera alveg í tvennt. 
  2. Hellið vel af olíu í eldfast mót og raðið kartöflunum í fatið. Setjið nokkrar smjörklípur í fatið og saltið vel. 
  3. Bakið við 180°C í 40 – 45 mínútur. Mér finnst gott að snúa þeim við einu sinni til tvisvar og vökva þær með olíunni og smjörin af og til. Þannig tryggjum við að þær verði stökkar að utan og mjúkar að innan. 



Piparostasósan vinsæla
  1. 500 ml matreiðslurjómi 
  2. ½ piparostur – eða meiri, smekksatriði 
  3. ½ kjúklingateningur 
Aðferð:
  1. Bræðið piparostinn í matreiðslurjómanum við vægan hita. 
  2. Bætið kjúklingatening saman við og hrærið vel í sósunni. 
  3. Berið fram með kjötinu og njótið.



Einfalt og ferskt salat með jarðaberjum og fetaosti. 





Góður kaffibolli og súkkulaðimoli er nauðsyn eftir svona lúxusmáltíð, ég var of gráðug og búin að borða súkkulaðið þegar myndin var tekinn.

Ég vona að þið njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Allt hráefnið sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups. 




Tuesday, August 18, 2015

Brúðkaupsterta



Anna Margrét vinkona mín giftist unnusta sínum honum Einari um síðustu helgi og fékk ég þann heiður að baka brúðkaupstertuna. Þetta er í annað sinn sem ég baka brúðkaupstertu en ég hef áður bakað fyrir systur mína. Mikil ósköp finnst mér þetta skemmtilegt og auðvitað pínu stressandi á sama tíma þ.e.a.s. vegna þess að ég vill auðvitað senda frá mér eins góða köku og möguleiki er á. Ég ákvað að baka góða súkkulaðiköku og skreyta hana með hvítu súkkulaðikremi, það er ávísun á glaða gesti. Undanfarið hef ég verið með æði fyrir blómaskreytingum og marengsskrauti, og útkoman var eins og þið sjáið á myndinni fyrir ofan. Falleg blóm setja ótrúlega fallegan svip á kökuna.



Súkkulaðibotnar 

Ég geri þessa súkkulaðibotna mjög oft og ég er alltaf jafn ánægð, þeir eru fremur dökkir og lyfta sér mjög vel. Fékk þessa uppskrift hjá Eddu systur minni fyrir nokkrum árum. 

Þetta er tvöföld uppskrift og miðast við fjögur jafn stór form (best er að gera hana í tveimur pörtum en þið sjáið hér að neðan hvaða og hversu mikið af hráefni þið þurfið) 

6 bollar Kornax hveiti (Amerísk mæling, 1 bolli = 2,4 dl)
4 bollar sykur
6 Brúnegg
4 bollar AB mjólk
2 bollar bragðdauf olía
10 msk kakó
4 tsk lyftiduft
2 tsk matarsódi
4 tsk vanilludropar eða sykur

Aðferð:

Blandið öllum hráefnum saman í skál, hrærið í nokkrar mínútur eða þar til deigið verður slétt og fínt. Hellið deiginu í smurð bökunarform og bakið við 180°C í 25 - 30 mínútur. Það er gott ráð að stinga hníf í kökuna eftir 25 mínútur og ef hnífurinn kemur hreinn upp úr er kakan klár en annars þarf hún lengri tíma. Ofnar eru auðvitað eins misjafnir eins og þeir eru margir.

Það er mikilvægt að leyfa kökunni að kólna alveg áður en hún er skreytt með kreminu.

Hvítt súkkulaðikrem

600 g smjör (mikilvægt að nota smjör en ekki smjörlíki) 
2 pk. flórsykur (hver pakki er 500 g) 
4 msk rjómi 
2 msk vanilla extract eða sykur 
400 g hvítt súkkulaði, brætt

Aðferð:

1. Þeytið smjörið í smá stund eða þar til það er orðið mjúkt og fínt. 
2. Bætið flórsykrinum saman við og tveimur matskeiðum af rjóma, þeytið mjög vel og stoppið að minnsta kosti tvisvar og skafið meðfram hliðum og haldið áfram að þeyta. 
3. Eftir nokkrar mínútur bætið þið vanillu saman við og hvíta súkkulaðinu sem þið bræðið yfir vatnsbaði. Þeytið áfram þar til kremið verður silkimjúkt og fallega hvítt. 

Eins og þið sjáið hér að ofan þá er þetta fremur stór uppskrift að kremi svo það er best að gera hana í tvennu lagi, en ég geri það sama og með kökuna hér að ofan ég tel upp þau hráefni og hversu mikið þið þurfið af þeim svo þið vitið nákvæmlega hvað þarf í kökuna. 

Smyrjið kreminu á milli botnanna og skreytið hana síðan með kreminu. Eins og þið sjáið þá er einn hlutinn aðeins minni en ég einfaldlega skar meðfram kökunni og þannig varð hún minni, sumir eiga form sem eru minni og þá er tilvalið að nota þau. Best er að skreyta kökurnar í sitthvoru lagi og leggja síðan minni hlutann ofan á þann stærri. Skreytið svo kökuna gjarnan með fallegum blómum og marengshnöppum. 




Ég var afar ánægð með útkomuna og brúðhjónin voru það sem betur fer líka, sem var nú fyrir öllu. 
Brúðkaupið þeirra var dásamlegt og ég hef sjaldan skemmt mér eins vel. 

Ég vona að þið njótið vel og sjáið hvað það er einfalt að setja saman fallega brúðartertu.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups



Sunday, August 16, 2015

Spaghetti Bolognese - einfalt og gott!


Spaghettí Bolognese er einn þekktasti pastaréttur í heimi, einfaldur og bragðgóður. Að mínu mati er hann fullkominn haustréttur, þegar ég hef góðan tíma þá finnst mér ótrúlega huggulegt að dunda mér að útbúa þennan rétt. Leyfa honum að malla í rólegheitum og fylla heimilið af ilm sem fær öll hjörtu til að slá hraðar. Hér kemur uppskriftin sem ég eldaði um daginn og er alveg ljómandi góð, já alveg ljómandi. 

Spaghetti Bolognese 

  • Ólífuolía
  • Smjör
  • 2 stilkar sellerí
  • 3 gulrætur
  • 600 g nautahakk
  • salt og nýmalaður pipar
  • 1 nautakjötsteningur + 1 dl soðið vatn
  • 1 krukka pastasósa frá Ítalíu
  • Handfylli fersk steinselja 
  • 3 msk sýrður rjómi t.d. 18% frá MS 
Aðferð: 
  1. Hitið olíu og smjör á pönnu. 
  2. Steikið sellerí, gulrætur og hvítlauk í smá stund eða þar til grænmetið fer að mýkjast.
  3. Bætið hakkinu út á pönnuna og kryddið til með salti og pipar. 
  4. Þegar hakkið er tilbúið þá bætið þið 1 krukku af pastasósu út á pönnuna ásamt nautakjötskrafi og smá vatni. 
  5. Smátt saxið steinselju og dreifið yfir. 
  6. Leyfið hakkinu að malla í 5 - 8 mínútur við vægan hita, bætið sýrða rjómanum saman við í lokin. 
  7. Sjóðið spaghettí samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. 
  8. Berið fram með Parmesan osti og nóg af honum. 









Það er algjör snilld ef það er afgangur að útbúa vefjur með allskyns góðgæti, virkilega gómsætt.

Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups

Sunday, August 9, 2015

Kjúklingabringur í tómat- og hvítvínssósu


Helgin leið hratt og örugglega, við höfum haft það svakalega gott og fengið til okkar góða gesti í mat, fylgst með gleðigöngunni og meira að segja komist í haust tiltektina. Í kvöld langaði mig í eitthvað einfalt og fljótlegt eftir annansaman dag, ég átti kjúklingabringur og tómata sem ég blandaði saman í góðan kjúklingarétt. Mamma mía hvað þetta var gott, ég borðaði á mig gat og hefði alveg getað borðað tómatana eina og sér, þeir voru ljúffengir. Virkilega góður endir á helginni og ég má til með að hvetja ykkur til þess að prófa þennan rétt í vikunni. 

 

Kjúklingur í tómat- og hvítvínssósu 

  • 2 kjúklingabringur eða álíka mikið magn af öðru kjúklingakjöti
  • 6 stórir tómatar
  • 6 kirsuberjatómatar
  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif 
  • 1 lítil krukka Dala fetaostur (osturinn + 1 msk af olíunni)
  • 1 msk smátt söxuð steinselja
  • 1 msk ólífuolía
  • 1 dl hvítvín (má sleppa) 
  • Salt og nýmalaður pipar 
  • 100 g rifinn ostur 
Aðferð: 
  1. Hitið ofninn í 180°C. 
  2. Skerið tómata í tvennt og leggið í eldfast mót.
  3. Saxið lauk og hvítlauk, bætið út í mótið. 
  4. Hellið smá olíu af fetaostinum og bætið út í. 
  5. Ég átti gott hvítvín og ákvað að nota smávegis af því, þess þarf ekki en hvítvínið passar vel í þennan rétt. 
  6. Saxið niður ferska steinselju og stráið yfir. 
  7. Blandið vel saman og leggið tvær kjúklinabringur yfir, kryddið þær til með salti og pipar. 
  8. Setjið inn í ofn í 25 - 30 mínútur, það er ágætt að snúa kjúklingabringunum einu sinni á meðan þær eru í ofninum. 
  9. Þegar um það bil 5 mínútur eru eftir af eldunartímanum bætið þið ostinum ofan á bringurnar.
  10. Berið réttinn gjarnan fram með nýrifnum parmesan. 







Fyrst ég var búin að opna hvítvínsflöskuna þá fékk ég mér eitt glas með matnum, einstaklega ljúft og gott sunnudagskvöld. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir



Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.