Thursday, April 30, 2015

Matargleði Evu; Tiramísú


Tiramisú

4 egg
100 g sykur
400 g mascarpone ostur, við stofuhita
½ tsk vanilluduft eða vanillusykur
4 dl þeyttur rjómi
250 g kökufingur(Lady Fingers)
6-7 dl sterkt uppáhellt kaffi
kakó eftir þörfum
smátt saxað súkkulaði

Aðferð:

Stífþeytið egg og sykur saman þar til þykk froða myndast.
Blandið mascarpone ostinum saman við eggjablönduna og hrærið vel.

Bætið vanillu og rjómanum varlega saman við
með sleif.


Hellið upp á sterkt kaffi og setjið kaffið í skál. Veltið kökufingrunum upp úr kaffinu og raðið þeim í há glös. Setjið 2 – 3 matskeiðar af ostablöndunni ofan á og sigtið vel af góðu kakó yfir. Það er fullkomið að saxa niður dökkt súkkulaði og sáldra yfir réttinn í lokin. Þessi eftirréttur þarf að fá að standa í kæli í lágmark 3 klukkustundir (helst yfir nótt) áður en hann er borinn fram.

Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Matargleði Evu; Ítalskar kjötbollur í tómat- og basilsósu


Ítalskar kjötbollur í tómat-og basilsósu

Tómat- og basilsósa

1 laukur, smátt skorinn
2 hvítlauksrif, marin
500 ml tómata passata
1/2 kjúklingateningur
1 msk.fersk steinselja, smátt söxuð
1 msk. fersk basilíka, smátt söxuð
skvetta af hunangi eða smá sykur
salt og pipar, magn eftir smekk


Aðferð:

Hitið olíu við vægan hita í potti, steikið lauk og hvítlauk í olíunni í 1 - 2 mínútur. 
Bætið öllu hinu í pottinn og leyfið sósunni að malla á meðan þið búið til kjötbollurnar. 

Kjötbollurnar

500 g. Nautahakk
500 g. svínahakk
1 dl. brauðrasp
1 laukur, smátt skorinn
3 hvítlauksrif, marin
3 msk. fersk steinselja, smátt söxuð
1 msk. fersk basilíka smátt söxuð
2 msk rifinn Parmesan ostur
1 egg, létt pískað
salt og pipar, magn eftir smekk
smá hveiti
góð ólífuolía

Aðferð:

Blandið öllum hráefnum saman með höndunum og búið til jafn stórar bollur úr deiginu.
Veltið bollunum upp úr smá hveiti og leggið þær í eldfast mót. Sáldrið olíu yfir bollurnar og setjið inn í ofn við 180°C í 10 – 15 mínútur.
Þegar bollurnar eru tilbúnar þá hellið þið sósunni varlega ofan í eldfasta mótið og eldið áfram í 20 mínútur.

Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum, ég mæli með að þið notið spaghettí eða linguini.

Berið réttinn fram með rifnum parmesan og nóg af honum!

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Matargleði Evu; Bruschetta með tómötum og hvítlauksosti




Bruschettur með tómötum og hvítlauksosti

1 gott snittubrauð
ólífuolía
1 hvítlauksrif

1 askja kokteiltómatar
2 marin hvítlauksrif
1 msk ólífuolía
1 msk balsamik edik
smátt söxuð fersk basilíka, magn eftir smekk
½ hvítlauksostur, smátt skorinn
salt og nýmalaður pipar

Aðferð: Hitið ofninn í 180°C. Skerið snittubrauðin í sneiðar og leggið á pappírsklædda ofnplötu, sáldrið olíu yfir brauðsneiðarnar og bakið í ofni í nokkrar mínútur. Þegar brauðið er tilbúið og orðið stökkt nuddið sárinu á hvítlauksrifinu ofan á hverja brauðsneið.

Skerið tómata í tvennt og skafið innan úr þeim, hvítlauksosturinn er skorinn í bita og hvítlaukurinn pressaður. Blandið öllu saman ásamt basilíku, olíu, balsamik edik og salti og nýmöluðum pipar. Setjið blönduna ofan á hverja brauðsneið og berið strax fram.

Njótið vel. 

xxx 

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Wednesday, April 29, 2015

Ítalskur vanillubúðingur með ástaraldinsósu.


Vanillubúðingur eða Pannacotta kemur frá Ítalíu. Hægt er að bera eftirréttinn fram allan ársins hring en ástaraldinsósan gerir þennan rétt einstaklega sumarlegan og ljúffengan.

500 ml rjómi

100 g hvítt súkkulaði
2 msk vanillusykur

1 tsk vanilluduft eða vanillukorn úr vanillustöng
2 plötur matarlím


Aðferð: 

1. ) Leggið matarlímsblöð í kalt vatn í 4 – 6 mínútur.  
2.) Á meðan hitið þið rjóma að suðu og bætið súkkulaði saman og bræðið í rólegheitum. 
3.) Hrærið í á meðan og þegar súkkulaðið er bráðnað bætið þið vanillusykri og vanilludufti saman við,  í lokin kreistið þið vökvann frá matarlímsblöðum og hrærið út í vanillublönduna. 
4.) Hellið í skálar og geymið í kæli að minnsta kosti í tvær til þrjár klukkustundir, best yfir nótt. 


Ástaraldinsósa

3 dl appelsínusafi

3 dl sykur
5 ástaraldin


Aðferð

1.) Sjóðið appelsínusafa og sykur saman við vægan hita. 
2.) Bragðbætið sósuna með ástaraldin og hrærið þar til þið eruð sátt með þykktina á sósunni.  
3.) Það er mikilvægt að kæla sósuna vel áður en þið ætlið að bera hana fram og er hún ljúffeng með vanillubúðingnum. 

Berið fram og njótið 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Bakvið tjöldin, Matargleði Evu.


Leikstjórinn minn hún Rikka fer yfir næstu uppskriftir með mér, mikið sem ég var heppin að hafa hana með mér í þessum þáttum. 


Vera mín að undirbúa fyrir næsta rétt.


Mitt uppáhald, tíramisú.


Búið að stilla upp og allt klárt fyrir tökur. 


Þetta teymi, mér þykir svo vænt um þau. Alltaf mikið líf og fjör í kringum þessar manneskjur. 


Hádegismaturinn var oftar en ekki frá Saffran. 


Eldhúsið fína. 


Lauksúpan í aðalhlutverki. 


Makkarónubakstur, stuttu síðar flæddi súkkulaði um borðið. Gott með mig, en þetta gekk nú að lokum. 


Makkarónur í aðalhlutverki.


Málað, borðað og farið yfir textann. 


Þessi morgunmatur er frekar ljúfur, chia grauturinn á Gló.


Veran mín. 

Mig langaði að sýna ykkur nokkrar myndir af eldhúsinu og lífinu í kringum þættina. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Monday, April 27, 2015

Vikumatseðill

 Á  hverjum degi kemur upp sama spurningin, hvað á að hafa í matinn? Tíminn er oft af skornum skammti en öll viljum við borða eitthvað gott og helst búa það til sjálf. Fyrir nokkrum árum starfaði ég á vinnustað þar sem viku matseðilinn var skipulagður á sunnudögum, þá var þetta aldrei neitt vafamál. Þetta fyrirkomulag sparar bæði tíma og pening, þannig er hægt að koma í veg fyrir óþarflega margar ferðir í matvöruverslanir. Ég hef tekið eftir nokkrum matarbloggurum sem gefa hugmyndir af vikuseðli og mér þykir mjög gaman að skoða þá seðla og fá hugmyndir, þess vegna langar mig að gera slíkt hið sama. Það er góð leið fyrir mig að halda betur utan um mínar uppskriftir og ég vona að með þessu fáið þið hugmyndir að kvöldverðum út vikuna.

Ég var alin upp við að fá fisk á mánudögum og eftir að ég fór að búa þá hef ég haldið í þá hefð. Fiskur er hinn fullkomna fæða, hann er bæði mjög hollur og bragðgóður. Það er tilvalið að byrja vikuna á góðum fisk. 



Einfaldur og góður pastaréttur, það er mjög gott að bæta t.d. risarækjum eða kjúkling við þessa uppskrift. Einfalt, fljótlegt og þægilegt. Fullkomið á þriðjudegi!



Þessi spínat- og sætkartöflubaka er ljómandi góð, berið hana fram með fersku salati og góðri dressingu.



Bragðmikill fiskréttur með rjómaosti, þessi réttur er mjög vinsæll á mínu heimili. Meira segja þeir sem segjast ekki borða fisk borða þennan rétt með bestu lyst! Á fimmtudögum er tilvalið að bera fram djúsí fiskrétt. 



Föstudagur eru pizzadagar í minni fjölskyldu og hvað er betra en pizza með mexíkósku ívafi? 



Á laugardögum er upplagt að fá fólk í mat og elda eitthvað gott. Kjúklingur Saltimbocca er Ítalskur kjúklingaréttur þar sem salvía og hráskinka leika lykilhlutverk. 



Á sunnudögum er tími til að njóta, svo mikið er víst. Nautalund með piparostasósu er alltaf stórgóð hugmynd og fullkominn endir á vikunni. 



Bakstur vikunnar. Möndlukakan hennar mömmu sem ég fæ ekki nóg af.


Ég vona að þið njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir




Sunday, April 26, 2015

Himnesk súkkulaðikaka


Kladdkaka er sænsk að uppruna og nýtur mikilla vinsælda, það má líkja henni við franska súkkulaðiköku. Stökk að utan en mjúk að innan. Í gærkvöldi sofnaði ég út frá hugsunum um girnilegar súkkulaðikökur og þegar ég vaknaði í morgun klukkan sex með dóttur minni þá var það mitt fyrsta verk að baka kökuna sem ég hafði í huga. Sænsk kladdakaka með súkkulaðimús, já hún er jafn góð og hún hljómar. Í fyrstu var ég hrædd um að hún yrði kannski svolítið þung en svo var ekki, ef þið elskið súkkulaði og langar í eitthvað gott í dag þá er þetta kakan. Það góða við þessa köku að það þarf ekki mörg hráefni og flest eigum við þau inn í skáp nú þegar.

Ingibjörg Rósa dundaði sér á meðan móðirin bakaði þennan sunnudagsmorguninn. 

Sænsk kladdkaka, súkkulaðibotninn.

100 smjör, brætt
2 Brúnegg
2,5 dl sykur
1,5 dl Kornax hveiti
2 tsk vanillusykur
3 msk gott kakó
½ tsk salt

Aðferð: Hitið ofninn í 175°C (blástur). Bræðið smjör í potti við vægan hita. Þeytið saman sykur og egg í smá stund eða þar til blandan verður létt og ljós. Blandið hinum hráefnunum saman við og hrærið í smá stund eða þar til deigið verður silkimjúkt. Smyrjið bökunarform (mér finnst best að nota smelluform en þá er mikið þægilegra að ná kökunni úr forminu).  Hellið deiginu í formið og bakið við 175°C í 20 mínútur. Kælið kökuna mjög vel áður en þið takið hana upp úr forminu og bætið súkkulaðimúsina ofan á botninn.

*Formið sem ég nota er 20cm að stærð.
*Mér finnst best að baka þennan botn við blástur en ef þið notið yfir-og undirhita þá þurfið þið að hafa hærri hita t.d. 200°C.

Himnesk súkkulaðimús

25 g smjör
150 g súkkulaði
3 Brúnegg, aðskilinn
2 msk sykur
2,5 dl rjómi

Aðferð: Bræðið smjör og súkkulaði við vægan hita í potti, þegar súkkulaðið er bráðnað hellið því í skál og leyfið að kólna. Þeytið rjóma og leggið til hliðar. Stífþeytið eggjahvítur, um leið og það byrjar að freyða í eggjahvítunum bætið þið sykrinum smám saman við. Eggjahvíturnar eru tilbúnar þegar þær eru stífar og þið getið hvolft skálinni án þess að þær hreyfast.

Blandið eggjarauðum saman við súkkulaðið, það er mjög mikilvægt að súkkulaðið sé kalt (annars gæti þetta orði að súkkulaði-eggjahræru). Blandið súkkulaði-eggja blöndunni út í marensinn og blandið rólega saman með sleif. Í lokin blandið þið rjómanum saman við með sleif.

Þá er súkkulaðimúsin klár. 

 Næsta skref er að taka súkkulaðibotninn upp úr forminu, setjið plast filmu yfir formið og setjið botninn aftur í. Hellið súkkulaðimúsinni yfir og geymið í kæli í lágmark 3 klukkustundir, best yfir nótt. Ég er alltaf að flýta mér og hafði ekki tíma né þolinmæði til að bíða svo ég notaði tvær matarlímsplötur sem ég leysti upp í heitu vatni og bætti þeim út í súkkulaðimúsina. Þess þarf að sjálfsögðu ekki en ef kakan á að vera stíf og fín þá er það vissulega betra. 




Þessi kaka er ómótstæðilega góð og sérstalega með ferskum jarðarberjum, ég ætla að bjóða upp á þessa köku í kvöld sem eftirrétt en hún mamma er búin að bjóða okkur í humarsúpuna sína sem er alltaf svo góð, ég þarf endilega að koma þeirri uppskrift hingað inn á bloggið.


Fallegi diskurinn sem þið sjáið á myndinni er frá cupcompany.is.


Ég vona að þið njótið vel og eigið góðan sunnudag framundan.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir




Friday, April 24, 2015

Pizzaveisla á blogginu, humarpizza og meira til!


Ég slæ ekki hendinni á móti góðri pizzu. Í síðasta þætti í Matargleði Evu lagði ég áherslu á sumarlega rétti. Mér finnst alltaf gaman að baka góða pizzur, það er bæði hægt að baka þær í ofninum eða setja þær á grillið. Hér eru uppskrifir að tveimur pizzum í mínu eftirlæti sem ég mæli með að þið prófið um helgina. 

Ítalskur pizzabotn

240 ml volgt vatn (mikilvægt að vatnið sé volgt)
2 ½ tsk þurrger
1 msk hunang
400 – 450 g hveiti 
1 tsk salt 
2 msk olía 

Aðferð:
Blandið volgu vatni, geri og hunangi saman í skál. Leggið viskastykki yfir skálina og leyfið gerinu að leysast upp í rólegheitum, eða í 7-10 mínútur. Um leið og það byrjar að freyða í skálinni þá er gerblandan tilbúin. Hellið gerblöndunni í hrærivélaskál og bætið öllum hráefnum saman við, það er góð regla að bæta hveitinu smám saman við.  Það gæti þurft minna en meira af hveitinu. Látið hnoðast í vélinni í 6 – 10 mínútur eða þar til deigið er orðið í laginu eins og kúla, einnig á það ekki að vera klístrað. Setjið viskastykki yfir hrærivélaskálina og leyfið deiginu að hefast í klukkustund eða þar til þar hefur tvöfaldast að stærð.



Hvítlauksolía

3 dl ólífuolía 
5 hvítlauksrif
1 tsk gróft salt

Aðferð:
Pressið hvítlauk og blandið honum saman við saltið, hellið olíunni og setjið hvítlaukinn í krukku.   Lokið krukkunni og hristið vel saman. 


Pizza sósa

1 msk ólífuolía
1 laukur, grófsaxaður
2 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
500 ml tómata passata
1 tsk tómatmauk eða tómatpúrra 
Handfylli fersk smátt söxuð basilíka
smávegis af hunangi
Salt og nýmalaður pipar

Aðferð: Hitið laukinn í olíunni þar til hann mýkist og verður glær. Bætið hvítlauknum, tómatapassata, basilíku, hunangi og salti og pipar saman við og leyfið sósunni að malla í  nokkrar mínútur.



Humar pizza 

Hvítlauksolía, magn eftir smekk
300 g skelflettur humar, skolaður og þerraður
Kirsuberjatómatar, skornir í tvennt
1 kúla mozzarella ostur
Salt og nýmalaður pipar
Klettasalat, magn eftir smekk
Parmesan ostur , magn eftir smekk

Hitið ofninn í 200°C. Fletjið deigið út og leggið á pappírsklædda ofnplötu. Smyrjið deigið með hvítlauks- og raðið humrinum og tómötunum ofan á. Kryddið með salti og pipar og stráið ostinum yfir. Bakið í 12 – 18 mínútur eða þar pizzan er orðin gullinbrún. Þegar pizzan er komin út úr ofninum er klettasalati bætt ofan á hana og parmesan osti sáldrað yfir.


 Pizza di’capria

1 pizzabotn
4 – 5 msk pizzasósa
100 g ferskur aspas, soðinn í saltvatni í 3 mínútur og þerraður
1 rauðlaukur, skorin í strimla
Geitaostur, magn eftir smekk
Mozzarellaostur, magn eftir smekk
Salt og nýmalaður pipar

Hitið ofninn í 200°C. Fletjið deigið út og leggið á pappírsklædda ofnplötu. Sjóði aspas í vel söltu vatni í þrjár mínútur og þerrið hann vel þegar hann er tilbúinn. Smyrjið deigið með pizzasósu og raðið aspas, rauðlauk og ostum ofan á. Kryddið með salti og pipar. Bakið í 12 – 18 mínútur eða þar til pizzan er orðin gullinbrún.

Njótið vel og góða helgi!

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir