Sunday, March 8, 2015

Fullkomin blaut súkkulaðikaka með Marsfyllingu


Þessi súkkulaðikaka er ótrúlega einföld og svakalega góð, hún er mjög blaut og er best þegar hún er enn heit og borin fram með vanilluís. Haddi bað mig um að baka þessa köku í vikunni og að sjálfsögu var ég til í það, enda slæ ég aldrei hendinni á móti góðri súkkulaðiköku. Þetta er tilvalin kaka fyrir sunnudagsbaksturinn, bæði fyrir kaffitímann eða sem desert eftir kvöldmat. Ég er svona 10 mínútur að hræra í deiginu og koma kökunni inn í ofn og það tekur hana 20 - 30 mínútur að bakast, það þarf semsagt ekki að bíða lengi eftir þessari ljúffengu köku. Sem er alltaf plús! Þetta veður býður líka upp á að gera vel við sig, koma sér vel fyrir upp í sófa með bók og finna kökuilminn berast um heimilið... svona eiga sunnudagar að vera. 

Hér kemur uppskriftin. 



  • 200 g sykur
  • 4 Brúnegg
  • 200 g suðusúkkulaði
  • 200 g smjör
  • 1 dl Kornax hveiti
  • 180 g Mars súkkulaði
Aðferð:



  1. Hitið ofninn í 180°C (blástur). 
  2. Þeytið sykur og egg saman þar til blandan verður létt og ljós. 
  3. Bræðið saman smjör og súkkulaði við vægan hita. 
  4. Blandið hveitinu saman við eggjablönduna.
  5. Hellið helmningnum af súkkulaðiblöndunni í eldfast mót, setjið saxað mars súkkulaði ofan á blönduna og hellið svo restinni af súkkulaðiblöndunni yfir.  
  6. Bakið kökuna í 25 - 30 mínútur við 180°C. (Hún á að vera frekar blaut en ef þið viljið hafa hana aðeins lengur þá er það í góðu og hún er jafn góð vel bökuð)







Njótið vel 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


No comments:

Post a Comment