Sunday, February 8, 2015

Ómótstæðilegar rjómabollur




Það hefur tíðkast á Íslandi í yfir hundrað ár að borða bollur á bolludaginn og frá því að ég var lítil þá hefur þessi dagur verið í algjöru uppáhaldi. Ég veit fátt betra en vatnsdeigsbollu með sultu og rjóma, eða annarri góðri fyllingu. Þegar ég var yngri var mikið sport að fá bollu með bleikum og dísætum rjóma, mamma bakaði alltaf heil ósköp af bollum og svo voru alltaf fiskibollur um kvöldið og rjómabollur í desert. Svo vorum við að sjálfsögðu með bolluvendi en ég hef ekki föndra mér slíkan undanfarin ár, ég hlakka til þegar Ingibjörg Rósa smakkar sína fyrstu bollu. Það verður auðvitað ekki nú í ár en kannski á næsta ári, ég er kannski eina móðirin sem hlakka til að bjóða barninu mínu rjómalagað bakkelsi en það má nú heldur betur skapa skemmtilegar minningar og það er allt gott í hófi, það er reglan okkar. Ég tók forskot á sæluna og bakaði nokkrar bollur, það þarf alltaf að æfa sig fyrir stóra daginn. Ég gerði hefðbundnar vatnsdeigsbollur bæði með glúteini og án glúteins. Þið finnið uppskrift að glútenfríum bollum hér.
Það er lítill vandi að búa til sínar eigin bollur og það er gaman að prófa allskonar fyllingar þó vissulega sé bolla með sultu og rjóma alltaf góð þá getur verið ágætt að breyta til. Ég mæli með að þið margfaldið ekki uppskriftina því það er hætta á að hlutföllin riðlist, mér finnst best að laga eina uppskrift í einu.
Hér er uppskrift að vatnsdeigsbollum og þremur ljúffengum fyllingum.





8 - 10 bollur





  • 100 g smjör
  • 2 dl vatn
  • 2 msk sykur (má sleppa)
  • 110 g Kornax hveiti
  • 3 stór Brúnegg (eða fjögur lítil)
Aðferð:





  1. Hitið ofninn í 200°C. (blástur)
  2. Hitið vatn, smjör og sykur saman í potti og látið suðuna koma upp. (gott er að láta vatn, sykur og smjör sjóða vel saman í 2 - 3 mínútur áður en hveitið er sett út í.
  3. Setjið hveiti út í, hrærið saman og látið kólna í 4 mínútur.
  4. Takið pottinn af hitanum og setjið eggin út í eitt í einu, sláið vel saman á milli. Það er líka ágætt að setja deigið í hrærivélaskál og hræra þannig saman.
  5. Setjið í sprautupoka og sprautið bollunum á pappírsklædda bökunarplötu en það má auðvitað gera það líka með tveimur skeiðum.
  6. Bakið bollurnar í 25 – 30 mínútur, það er mikilvægt að opna ekki ofninn fyrstu 15 mínúturnar af bökunartímanum því þá er hæta á að bollurnar falli.  






Tips! Mér finnst gott að slá eggin létt saman áður en bæti þeim saman við deigið.

Svona lítur deigið út þegar það er tilbúið, svolítið stíft viðkomu. Sprautið bollurnar á pappírsklædda ofnplötu eða notið tvær skeiðar til að móta bollurnar.

Ljúffengar fyllingar




Jarðarberjafylling
 Klassísk og góð fylling sem fær mig til þess að fara aftur í tímann þegar ég var yngri og fékk pening hjá mömmu til þess að hlaupa út í bakarí og kaupa mér eina gómsæta bollu með dísætu bleiku kremi. Nostalgían í hámarki við hvern bita...

  • 1 askja jarðarber (10 - 12 stk)
  • 4 dl rjómi
  • 2 tsk. flórsykur

Aðferð:
  1. Maukið jarðarberin með töfrasprota eða með gaffli.
  2. Þeytið rjóma og sigtið flórsykur saman við í lokin
  3. Blandið jarðarberjamaukinu varlega saman við rjómablönduna með sleif.

Nutella - og bananarjómi

 Þetta er fyllingin sem þið óskið að taki aldrei enda, hún er of góð til að vera sönn. (en þetta er engu að síður sönn saga)
  • 4 dl rjómi
  • 1 banani
  • 3 msk. Nutella

 Aðferð:
  1. Þeytið rjóma.
  2. Maukið banana og Nutella saman með töfrasprota eða stappið vel saman með gaffli.
  3. Blandið bananablöndunna varlega saman við rjómann með sleif.





 Karamellufylling
Karamella er klassísk og hún er alltaf góð, það er ekki annað hægt en elska hana. Þessi fylling er algjört sælgæti og ég gæti vel trúað að hún eigi eftir að falla vel í kramið hjá börnum. Dísæt og dásamleg.
  • 4 dl rjómi





  • 3 msk. karamellusósa (sjá uppskrift hér)






  • 1 - 2 dl. karamellukurl
Aðferð:
  1. Þeytið rjóma.
  2. Blandið karamellusósu saman við rjómann með sleif, prófið að gera ykkar eigin karamellusósu. Það er miklu einfaldara en ykkur grunar. Hér er góð uppskrift. Passið að hún sé köld þegar þið blandið henni saman við rjómann.
  3. Í lokin blandið þið karamellukurli saman við rjómablönduna.


Njótið vel kæru lesendur.
xxx
Rjómabollan

5 comments:

  1. Hlakka til að prófa þessar á bolludaginn! :-)
    Ein spurning, ertu með ofninn stilltan á blástur?

    ReplyDelete
    Replies
    1. Sæl Carmen. Já ég er með ofninn á blástur, bæti því við í færslunni.

      Bestu kveðjur,

      Eva Laufey

      Delete
  2. En ef maður er ekki með blástur í ofninum?

    ReplyDelete
    Replies
    1. Sæl Vala. Þá mæli ég með að baka þær við 200°C. Það er góð regla að fylgjast vel með bollunum, passa að opna ekki ofninn fyrstu 10 - 15 mín.

      Delete
  3. 110 Kornax hveiti, hversu mikið hveiti?

    ReplyDelete