Sunday, March 31, 2013

Páskadagur



Páskarnir ó elsku páskarnir. Ég er búin að hafa það svo ótrúlega gott í Noregi, góður félagsskapur og veislumatur á hverjum degi. Í dag var íslenskt lambalæri með öllu tilheyrandi, ég fékk að sjá um lambalærið að þessu sinni. Ég prufaði voðalega góða marineringu með ferskum kryddjurtum sem ég ætla að deila með ykkur á næstu dögum. Meðlætið var einfalt, ofnbakaðar kartöflur, ferskt salat, gular baunir, sveppasósa og pönnusteiktar gulrætur með hvítlauksolíu. Í forrétt og eftirrétt voru svo öll páskaeggin sem allir á heimilinu hafa verið að narta í síðan í morgun. Í eftirrétt, eftirrétt voru  ostar og með því. Í kvöld er planið að horfa á sjónvarpið og hafa það huggulegt. Á morgun taka svo við ný og skemmtileg verkefni því nú er ný vika að hefjast og margt á döfinni sem þarf að huga að. En kvöldið í kvöld á að fara í almenn huggulegheit og leti. 

Ég vona að þið hafið það sérlega gott í kvöld. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Saturday, March 30, 2013

Sólríkur dagur.

 Enn einn sólardagur hér í Noregi. Við ákváðum að fara yfir til Stavanger í morgun og rölta þar um. Við skoðuðum okkur um, kíktum í búðir og fengum okkur að borða. Bærinn iðaði af mannlífi og við sátum við höfnina og borðuðum góðan mat og fengum okkur rósavín, mjög huggulegt og það er svo góð tilfinning að finna að sumarið er á næsta leyti. 




 Steindór Mar prins og mamma mín.
 Fallegu systkinin mín, Maren Rós og Allan Gunnberg.



 Ég hef aldrei skilið norska matargerð og mér finnst alltaf svolítið spennandi að sjá hvernig diskurinn lítur út ef ég panta mér mat á veitingahúsi, í dag fékk ég mér salat og mér fannst chili-skrautið mjög skemmtilegt. Mjög smart að henda heilu chili ofan á salat:) 


 Stavanger skartaði sínu fegursta í dag.
Svona dagar eru einfaldlega dásamlegir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran.

Thursday, March 28, 2013

Gular og gómsætar makrónur.

 Sólin skín hér í Noregi og vorið er svo sannarlega komið. Ég ákvað í morgun að baka franskar makrónur, auðvitað áttu þær að vera gular að þessu sinni. Gulur er uppáhalds liturinn minn svo ég er sérlega ánægð með páskana, þá fær guli og fallegi liturinn að njóta sín. Litlu prinsunum mínum fannst kökurnar sérstaklega spennandi og nú er skálin tóm, þá þurfum við bara að baka fleiri og ekki finnst mér það leiðinlegt. 

 Þið finnið mjög einfalda uppskrift að makrónum hér

Ég gerði sítrónusmjörkrem með hvítu súkkulaði, ég get sagt ykkur það að þetta krem er eitt það besta sem ég hef smakkað. Mæli svo sannarlega með þessu krem. 

Sítrónusmjörkrem. 

75 g smjör, við stofuhita 
150 g flórsykur
70 g hvítt súkkulaði
2  msk sítrónusafi
2 tsk rifinn sítrónubörkur

Aðferð:

Hrærið saman smjör og sykur þar til smjörblandan verður létt og ljós, bætið sítrónusafa og börkinum saman við. Hrærið vel í 2 - 3 mínútur. Hitið súkkulaði yfir vatnsbaði og bætið saman við smjörblönduna. Blandið þessu vel saman  og setjið síðan kremið í sprautupoka og inn í kæli í 10 - 15 mínútur. 

 Það er ekkert páskalegra en gulir og fallegir túlípanar.


Ég vona að þið hafið það sem allra best yfir páskana. Mæli auðvitað með að þið setjið upp spari svuntuna og hefjið bakstur, það bætir og kætir. 

Páskakveðja til ykkar. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Wednesday, March 27, 2013

Amerískar pönnukökur með ljúffengu bláberja sírópi.

Að byrja daginn á amerískum pönnukökum er ávísun að ljúfum degi,  ég segi það satt. Það er ekki hægt að fara öðruvísi út í daginn eftir pönnukökuát en með bros á vör og kannski með smá síróp út á kinn. Það er ekki langt síðan að ég byrjaði að baka þessar pönnukökur en mikið sem ég er ánægð að hafa byrjað á því, ég fæ ekki nóg af þeim. Í páskafríinu er tilvalið að baka pönnukökur í morgunsárið, ég er svo hrifin af páskafríinu vegna þess að það einkennist af svo mikilli ró. Ekkert stress og allir frekar slakir. Amerískar pönnukökur, bláberjasíróp, hrærð egg, beikon, ostar, sultur, hrökkbrauð, reyktur lax með piparrótarsósu og ferskir ávextir. Nú er ég að lýsa drauma morgunverði, það er eitthvað ofur dásamlegt við það að byrja daginn á góðum morgunverði.

 Ég ætla að deila með ykkur uppskrift að einföldum amerískum pönnukökum og bláberjasírópi. Njótið vel!

 Amerískar pönnukökur

1 Egg
2 msk. Sykur
5 dl. Hveiti
3 tsk. Lyftiduft
1/2 tsk. Salt
3 msk. Smjör ( brætt)
4 dl. Mjólk (Ef ykkur finnst deigið of þykkt þá bætið þið meiri mjólk út í)
1 tsk. Vanilla extract

1. Sigtið saman hveiti, lyftidufti og salt í skál.
 2. Bræðið smjör, leggið til hliðar og kælið.
3. Hrærið mjólk og eggjum saman í annarri skál.
4. Setjið mjólkurblönduna út í hveitiblönduna og hrærið vel saman. 
5. Bætið smjörinu saman við í nokkrum pörtum og hrærið vel á milli.
6. Bætið vanillu extractinu og sykrinum saman við í lokin.

Þá ætti deigið að vera tilbúið. 

Hitið smá smjör á pönnu og setjið smá deig á, bakið á báðum hliðum þar til þær eru orðnar gullinbrúnar (Nokkrar mínútur á hverri hlið).

Bláberjasíróp.

1 1/2 dl agavesíróp
4 dl frosin eða fersk bláber

Setjið sírópið og bláberin í pott og hitið við vægan hita, leyfið þessu að malla í 4 - 5 mínútur. Hrærið í þessu á meðan, það er líka rosa gott að rífa smá sítrónubörk niður og bæta saman við. 

Hellið blöndunni í skál og berið fram með pönnukökunum. 
Þessar pönnukökur eru að mínu mati dásamlegar. Mér finnst þær sérstaklega góðar með bláberjasírópi og smá rjóma líka ef þið eruð í þannig stuði. 
Pönnukökurnar kláruðust fljótt, ég borðaði þær með bláberjasírópi en bræður mínir fengur sér annað síróp og borðuðu pönnukökurnar líka með smjöri og osti. Það eru semsé margir möguleikar í boði. 

Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift um páskana... Gott að hafa þá reglu að sá sem fyrstur fer á fætur ber skylda að vekja hina fjölskyldumeðlimi með pönnukökuilm. Það er alla vega húsregla sem ég myndi fylgja. 

Njótið ykkar um páskana elsku vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Tuesday, March 26, 2013

Stavanger

 Það er aldeilis ljúft að vera hér í Noregi hjá fjölskyldu minni. Í dag vorum við að rölta um og skoða Stavanger, ég á eftir að deila frekar mikið af myndum með ykkur af þessum fallega bæ. Veðrið er líka einstaklega gott  og það verður allt svo fallegra í sólinni. Á myndinni hér að ofan má sjá Daníel Mar grallaraspóa, hann er yngsti sonur systur minnar. 
 Daníel Mar og Maren Rós, sætu og krúttlegu mæðgin.
 Kristían Mar Kjaran draumaprins.
 Páskaskraut í öllum búðum.
 Ég og Maren systir mín. 

Eftir gönguna var okkur orðið svolítið kalt og við vorum auðvitað svöng, það var því ekkert annað í stöðunni en að hamborgara sig upp. Frekar ljúfur dagur á enda. Ég vona að þið hafið það gott kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Monday, March 25, 2013

Lífið Instagrammað.

1. Virkilega góð byrjun á deginum. 
2. Haddi minn átti afmæli þann 20.mars og auðvitað var skálað fyrir því.
 3. Hélt bollakökunámskeið fyrir hressa unglinga í Rimaskóla. 
4. Hádegisdeit á Jómfrúnni klikkar seint.
 5. Allir góðir laugardagar byrja á amerískum pönnukökum, svo mikið er víst.
6. Á föstudaginn þá fór ég á árshátíð Vöku, það var ótrúlega gaman.
 7. Útsýnið mitt í gær þegar ég flaug til Noregs. Ætla að eyða páskunum í Noregi með fjölskyldunni minni og það er svo afskaplega notalegt að vera komin út til þeirra. 

Þið getið fylgst með mér á Instagram, finnið mig undir evalaufeykjaran

Ég vona að þið eigið ljúfan mánudag framundan. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Friday, March 22, 2013

Bollakökunámskeið í Rimaskóla.

Þann 19.febrúar hélt ég bollakökunámskeið fyrir hressa unglinga í Rimaskóla. Hver og einn bakaði og skreytti sínar kökur.  Svo fengu þau auðvitað að taka afraksturinn með heim. Það var virkilega skemmtilegt að eyða kvöldinu með þessum skemmtilegu unglingum. Kökurnar þeirra smökkuðust mjög vel og skreytingarnar voru til fyrirmyndar. Algjörir snillingar þessir krakkar. Ég tók auðvitað myndavélina með og tók nokkrar myndir af kvöldinu sem ég ætla að deila með ykkur. 




 Frábærir unglingar og skemmtilegt baksturskvöld. 

xxx

Eva Laufey Kjaran