Sunday, September 30, 2012

Að skottast af stað...


Eftir sumarhuggulegheitin þá getur verið erfitt að koma sér í rútínu. Við bíðum eftir því að komast í sumarfrí.. svo bíðum við eftir því að komast í rútínu.
Við erum nú svolítið fyndin, við erum alltaf að bíða.

Að mínu mati er best að setja sér markmið fyrir hverja viku, ég skrifa markmiðin mín niður í dagbókina mína.Það er mikilvægt að setja sér raunsæ markmið, byrja rólega og auka svo við sig. Það er svo sannarlega erfitt að byrja og það er ekkert sérlega skemmtilegt að koma sér í form, nú tala ég bara fyrir mig sjálfa.

Það er svo dásamleg tilfinning að fara úr erfiðum 3 km í góða 10 km. Svo erfiðin eru þess virði, það er fyrir öllu að líða vel í líkama og sál.

Líkamsrækt er mér mikilvæg, fyrir bæði líkamann minn og sálina mína. Hvort sem að það er göngutúr, hjólatúr, hlaupaferð eða t.d. spinningtími.

Stundum getur verið hreint ómögulegt að gíra sig í gang og það er hægt að finna svo margt annað til þess að gera en að fara bara út og hlaupa af stað.

Tilfinningin er svo góð þegar að maður skottast af stað með uppáhalds tónlistina í eyrunum. Allt annað þurrkast út og í augnablik eru það bara þú og tónlistin...Ég verð að hlusta á tónlist þegar ég hreyfi mig, það má með sanni segja að lögin koma manni nú oft í gegnum erfið hlaup.

Hér eru fimm lög sem ég hlusta gjarnan á þegar ég fer út að hlaupa.


  1. Safri duo - The Bongo song
  2. Rihanna - We found love
  3. Darude - Sandstorm
  4. Jock James - Are you ready for this
  5. PSY - Gangman style 
Svo hlusta ég auðvitað á júróvísion smelli og þá verða hlaupin miklu skemmtilegri. Ég er vissulega með gott eyra fyrir góðri tónlist eins og þið sjáið, verst að vinir mínir leyfa mér ekki að stjórna músíkinni í teitum. Ég skil auðvitað ekkert í þeim.

Sá græni og góði...Þessi safi er alltaf góður og svo ótrúlega einfaldur. Stútfullur af góðum vítamínum. 

Spínat, appelsínutrópí, hörfræ, mangó, banani og nokkur bláber. 
Virkilega gott!

xxx

Eva Laufey Kjaran

Helgin mín

Helgin er búin að vera fljót að líða. Ég er búin að hafa það ansi huggulegt hér heima við og í sumarbústað með yndislegum vinum. Það er fátt skemmtilegra en að fara upp í bústað með góðum vinum. Borða góðan mat, spila, drekka vín, fara í pottinn og hafa það almennt ansi gaman. Veðrið var líka yndislegt og umhverfið svo ótrúlega fallegt. Ég elska haustið og sjarmann sem fylgir haustinu

Litagleðin í náttúrunni er svo falleg. Ég fékk mér smá göngutúr í dag áður en að ég fór heim. Það er ekkert eins gott og að labba um í sveitinni, kyrrðin er ótrúlega þæginleg og maður nær að slappa alveg af. Mér líður allavega afskaplega vel upp í bústað og ég þarf að vera duglegri að fara þangað. 

Kaffið drukkið úti á palli, veðrið var ansi ljúft í dag. 
Haustlitir og sólin.... 

Talandi um að helgarnar séu fljótar að líða þá er október á morgun! Tíminn flýgur áfram.
Október er nú ansi fínn mánuður og það er nóg um að vera. Margt skemmtilegt framundan. :) 

Þessir vinir mínir eru svo frábærir. 

Ég vona að þið hafið átt ljúfa helgi kæru vinir og takk fyrir september!

xxx

Eva Laufey Kjaram 

Saturday, September 29, 2012

Kjúklinganúðluréttur


Að mínu mati er nauðsyn að hefja helgina á því að fá sér góðan mat. Föstudagsmatur á að vera einfaldur , fljótlegur og ansi góður auðvitað. Mér finnst ótrúlega gott  að nostra aðeins við matinn og njóta þess að sigla inn í helgina. Maðurinn minn gaf mér ansi gott rauðvín í gær og því var drukkið eitt glas af góðu víni með matnum. Góður matur og gott er uppskrift að ansi notalegu kvöldi. 

Ég fæ sjaldan löngun í núðlur en fékk slíka löngun í gær og útbjó því kjúklinganúðlurétt. Vissulega af einföldustu gerð. Hefði ég haft tíma þá hefði ég nú dúllað meira við matinn, t.d. marinerað kjúklinginn eða búið til sósuna frá grunni. Það er nú önnur saga, en maturinn var virkilega góður og langar mig þess vegna að deila uppskriftinni með ykkur.  



Kjúklinganúðluréttur 

1 rauð paprika, smátt skorin
1 gul paprika, smátt skorin
1/2 rautt chili, fræhreinsað og smátt skorið
handfylli af söxuðum vorlauk
1/2 spergilkál, smátt skorið
nokkrir stilkar mini-maís, skornir í litla bita
nokkrir ferskir sveppir, magn eftir smekk
2 kjúklingabringur 
eggjanúðlur ca. 150 g 
sweet and sour wok sauce, einn lítill poki 
3 msk philadelphia sweetchili rjómaostur
1 bolli vatn
salt og nýmalaður pipar
steinselja, söxuð


Hitið olíu á pönnu við vægan hita, skerið kjúklinginn í litla bita og steikið í smá stund. Bætið öllu grænmetinu saman við, saltið og piprið duglega. Leyfið þessu að vera á pönnunni við vægan hita í nokkrar mínútur, passið að hræra í með jöfnu millibili. 

Þessar núðlur eru ansi góðar . Sjóðið þær samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. 

Sweet & sour sósan, hún er ansi fín og passaði vel við réttinn.

Þegar núðlurnar eru tilbúnar þá bætið þið þeim við grænmetið og kjúklinginn á pönnunni. Bætið síðan wok-sósunni, vatninu og rjómaostinum saman við. Blandið þessu öllu mjög vel saman. Kryddið til með salti og pipar, leyfið þessu að malla á pönnunni í 10 - 15 mínútur  við vægan hita.
Passið að hræra í með jöfnu millibili svo ekkert festist við pönnuna. 
Sáldrið ferskri steinselju yfir réttinn þegar þið berið hann fram 
Berið réttinn gjarnan fram með hrísgrjónum eða brauði. 
Gott glas af rauðvíni og góður matur gerir föstudagskvöld enn betra.





Hvet ykkur til þess að prufa. Ansi einfaldur og góður réttur.

Ég vona að þið eigið ljúfan laugardag og gerið það sem ykkur þykir skemmtilegt. Það er nú einu sinni helgi og þá er tilvalið að hafa það svolítið huggulegt. 

Góða helgi elsku vinir

xxx

Eva Laufey Kjaran

Friday, September 28, 2012

Lífið instagrammað...

Tólf myndir af instagram... 


 1. Morgunhuggulegheit. Matarblöð og góður kaffibolli. 2. Systur fyrir utan Alþingi, prúðbúnar

 3. Matur hjá ömmu, best í heimi 4. Ljúffengur capp!

 5. Orðin stutthærð!

 6. Vanilluskyrkaka með ferskum berjum og kókos

  7. Kaffihúsadeit með manni mínum 8. Hádegisdeit með fögrum vinum

  9. Æfing dagsins í dag 10. Knúsaði litla vin minn hann Ólaf Dór í dag, yndislegur


11. Grænt boozt 12. Föstudags huggulegheit, kjúklinganúðluréttur og rauðvín


xxx

Eva Laufey Kjaran

Góð byrjun á deginum


Það er ansi ljúft að byrja daginn á því að fá sér góðan boozt. Ég reyni að vera dugleg að búa til b
oozt áður en ég fer í skólann en vissulega er ekki alltaf tími til þess. Þá daga sem ég næ að gera mér boozt þá líður mér ótrúlega vel. Það er nauðsynlegt fyrir líkamann að fá góða næringu áður en lagt er af stað út í daginn... 


Berja boozt 

1 bolli frosin blönduð ber
1 bolli frosin jarðaber
1 banani
1 msk hörfræ
1 lítil dós vanilluskyr
ca. 150 ml superberries safi

Allt saman sett í blandarann í nokkrar mínútur. 
Ég átti nokkur fersk jarðaber og lét nokkur ber ofan á booztið. 



Virkilega ferskt og gott boozt. Blandan dugir vel í tvö stór glös svo ég fékk mér eitt í morgunsárið, lét restina inn í ísskáp og fæ mér svo aftur í dag sem millimál.

Það er föstudagur í dag, uppáhalds dagurinn minn. Plan dagsins er lærdómur, hlaup og svo langar mig mikið í eitthvað gott í kvöldmatinn. Það er nú algjör skylda að fá sér eitthvað gott á föstudögum. 

Ég vona að þið eigið ljómandi fína helgi 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Thursday, September 27, 2012

Mexíkósk kjúklingasúpa með philadelphia sweetchili rjómaosti



Ég gæti borðað súpur í öll mál, mér finnst fátt betra en góð og matarmikil súpa á köldu haustkvöldi.
Súpur sem eru með allskyns góðgæti í  eru í sérlegu uppáhaldi.

Mexíkósk kjúklingasúpa er í sérflokki, hún er svo góð að mínu mati. Ég hef nú bloggað um hana áður en það eru sem betur fer ekki takmörk fyrir því að tala um sömu súpuna. Að þessu sinni þá prufaði ég rjómaost sem kemur fljótt í matvöruverslanir, dásamlegur philadelphia rjómaostur með sweetchili. (Það er auðvitað hægt að nota hreinan rjómaost líka og bæta þá t.d. chili tómatsósunni frá Heinz með í súpuna) Osturinn gefur súpunni auka kraft og súpan verður mun betri fyrir vikið. 

Það er mín skoðun að súpan er alltaf betri ef hún fær að malla í rólegheitum. Því lengur því betri að mínu mati. Súpur eru  ótrúlega góðar daginn eftir og ég passa mig alltaf á því að gera nóg af súpu svo ég eigi örugglega súpu daginn eftir. 


Mexíkósk kjúklingasúpa
Uppskrift er fyrir u.þ.b 5 - 6 manns.


4 kjúklingabringur, smátt skornar (eða heill kjúklingur, skorinn í litla bita)
1 rauð paprika, smátt skorin
1 græn paprika, smátt skorin
1 gul paprika, smátt skorin
2 gulrætur, smátt skornar
1/2 blaðlaukur , smátt skorinn
2  hvítlauksgeirar
1 laukur , smátt skorinn
1/2 rautt chili, fræhreinsað og smátt skorið
2 msk olía 
2 dós saxaðir tómatar
2 teningar af kjúklingakrafti
2 - 3 msk karrý 
smá kjúklingakrydd
3 lítrar vatn
1 peli rjómi
1 dós tómatpúrra
200 g philadelphia rjómaostur með sweet chili 
salt og nýmalaður pipar

Aðferð: 

Hitið olíu á pönnu við vægan hita, saxið grænmetið smátt og steikið í smá stund á pönnunni, bara rétt til að fá smá gljáa. Setjið grænmetið í stóran pott, bætið vatninu , tómatpúrrunni, karrýinu, kjúklingateningum og   söxuðum tómötum saman við, leyfið þessu að malla á meðan þið steikið kjúklinginn. 

Skerið kjúklinginn í litla bita og steikið á pönnu upp úr olíu í smá stund, kryddið til með kjúklingakryddi, salti og pipar. Bætið kjúklingnum við súpuna. Látið hana sjóða við vægan hita í 10 - 15 mín.

Að lokum fer rjóminn og rjómaosturinn saman við súpuna.Takið ykkur góðan tíma til að laga súpuna, ég leyfði henni að malla við vægan hita í um það bil klukkustund en þess þarf auðvitað ekki. Látið hana þó malla í lágmark 30 mín. Bragðbætið súpuna að vild, gæti verið að þið viljið meiri karrý eða meiri pipar. 
Mikilvægt að smakka sig til! 



 Berið súpuna fram með sýrðum rjóma, rifnum osti og nachos flögum, sem hver og einn bætir á sinn disk eftir smekk.



 Þessi súpa gleður mig mjög mikið og mér finnst ótrúlega huggulegt að standa við eldavélina og dúlla mér við súpugerð. Ilmurinn um heimilið er líka dásamlegur á meðan. Hún er svolítið sterk svo ég mæli með að þið smakkið ykkur til. En ég er þó  frekar mikil hæna þegar kemur að sterkum mat, kannski er hún ekkert svakalega sterk.  Hún er allavega ansi góð og ég mæli innilega með að þið prufið. 

Annars vona ég að þið eigið gott kvöld framundan. Þetta er alveg veður til þess að skríða upp í sófa eftir matinn, kveikja á nokkrum kertum og njóta þess að hafa það huggulegt á meðan vindurinn blæs. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Sunday, September 23, 2012

Sænskir kanilsnúðar með glassúr

Sænskir kanilsnúðar eru sérlega góðir snúðar sem fanga augað. Í Svíþjóð er árlega haldin "kanelbullans dag" þann 4 október. Október nálgast og því er tilvalið að setja á sig svuntuna og baka nokkra ljúffenga sænska kanilsnúða. 

Uppskriftirnar af sænskum kanilsnúðum eru ótal margar, ég var lengi vel að dúlla mér á internetinu að skoða uppskriftir. Ég fann eina sem mér leist mjög vel á,  ég átti til flest hér heima fyrir sem þurfti til þannig ég þurfti ekki að byrja á því að fara út í búð. Mér finnst alltaf svo ánægjulegt að sleppa við það. Að geta bara dúllað mér áfram í náttfötunum, bara svona týpískir huggulegir sunnudagar. 

Snúðarnir heppnuðust mjög vel að mínu mati og ég mæli með að þið prufið. 



Sænskir kanilsnúðar 

Deig :
           
15 dl hveiti      
1 bréf þurrger
135 g smjör
2 dl sykur
1 egg
4 dl mjólk
1 tsk vanilla extract 
smá salt 

Fylling : 

50 g sykur
100 g smjör
2 - 3 msk kanill (fer eftir því hvað þið viljið mikið kanilbragð)

Ofan á : 

1 egg
perlusykur 


Það tekur svolítinn tíma að útbúa þessa dásamlegu snúða svo það er nauðsyn að gefa sér góðan tíma. 

Aðferð:

Hitið mjólkina upp að 37°C (líkamshiti) og bætið þurrgerinu saman við, blandið þessu vel saman. 
Leggið til hliðar og náið ykkur í aðra skál. 

Setjið hveiti, sykur, salt, egg, vanillu extract og smjör sem á að vera við stofuhita saman í skálina.
 Best er að nota hendurnar til þess að blanda þessu vel saman. 

Hendurnar verða verulega klístraðar og fínar en það gerir nú ekkert til. Hellið mjólkurblöndunni í pörtum saman við hveitiblönduna og blandið þessu vel saman með höndunum. 

Því næst setjið þið deigið á borðið og hnoðið almennilega saman. Mér finnst gott að strá örlitlu hveiti á borðið áður en ég læt deigið á borðið. 

Setjið deigið aftur í skálina, breiðið röku viskustykki yfir og látið hefast í 30 - 40 mínútur. 

Þegar að deigið er búið að hefast þá skerið þið deigið í tvo bita. 
Fletjið deigið út og smyrjið fyllinguna á deigið. 

Ég hitaði smjörið í smá stund í potti, bræddi það ekki alveg en það var silkimjúkt. Bætti sykrinum og kanil saman við. Blandan á að vera svolítið þykk. 

Rúllið deiginu upp eða brjótið það saman og skiptið því upp í lengjur, það er ansi gaman að föndra svolítið með deigið. Sænsku kanilsnúðarnir eru svo fallegir og það eru mörg vidjó á netinu sem sýna ýmsar aðferðir til þess að gera fallega snúða. Hvað sem þið gerið, þá verða þeir nú alltaf jafn góðir. 

Setjið bökunarpappír í ofnskúffu, raðið snúðunum á pappírinn og leggið viskustykki yfir þá, rakt viskustykki. Leyfið þeim að standa í ca. 30 mínútur. 

Að lokum pískið þið egg og penslið snúðana. Ég stráði smá perlusykri yfir snúðana. 
Bakið þá við 200°C í 8 - 10 mínútur. 

Það er fátt sem jafnast á við kanilsnúðalyktina sem ilmar um heimilið... 

Ég get eiginlega aldrei beðið eftir að þeir kólni og stelst alltaf í smá bita, vel mér þá auðvitað girnilegasta snúðinn. :-) 

Persónulega þá finnst mér snúðarnir bestir bara nýkomnir út úr ofninum með ískaldri mjólk en þeir eru líka ferlega góðir með glassúr. 

Ég nota enga sérstaka uppskrift þegar ég geri glassúr, dassa mig bara áfram. 

En það sem ég nota alltaf er flórsykur, mjólk og vanillu extract. Dass af flórsykri, dass af mjólk og dass af vanillu extract eða vanilludropum ef þið eigið ekki vanillu extract. Blandið þessu öllu vel saman og úr þessu verður til dásamlegur glassúr. 


Ég spara alls ekki glassúrinn á mína snúða... 




                    Það er hægt að bæta við hverju sem er í þessa snúða t.d. berjum og súkkulaði. 


Sunnudagskaffið verður ekki betra að ég held. Ég bakaði svolítið mikið svo ég frysti nokkra snúða, það er ansi ánægjulegt að eitthvað bakkelsi í frysti. Gaman að gefa gestum góða snúða svo er nú líka bara ansi huggulegt að fá sér einn og einn snúð af og til... 

Ég vona að þið eigið ljómandi fínan sunnudag 

xxx

Eva Laufey Kjaran